Körfubolti

Meistararnir héldu sér á lífi á móti Lakers og Davis í hjólastól inn í klefa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Davis fékk höfuðhögg og fann greinilega til. Hann fór snemma inn í klefa og kláraði ekki leikinn.
Anthony Davis fékk höfuðhögg og fann greinilega til. Hann fór snemma inn í klefa og kláraði ekki leikinn. AP/Godofredo A. Vásquez

Golden State Warriors og New York Knicks forðuðust bæði sumarfrí í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt þegar þau minnkuðu muninn í 3-2 í einvígum sínum.

Stephen Curry skoraði 27 stig og gaf 8 stoðsendingar þegar Golden State Warriors vann 121-106 sigur á Los Angeles Lakers. Meistarar Golden State fengu einnig flottan leik frá sem var með 25 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.

Draymond Green átti mikinn þátt í sigrinum því auk þess að fara fyrir mun betri vörn liðsins en í síðustu leikjum þá var hann með 20 stig og 10 fráköst.

Gary Payton II er líka kominn inn í byrjunarliðið fyrir Jordan Poole og það gekk upp í þessum leik. Payton bauð upp á fína vörn og þrettán stig.

LeBron James var með 25 stig fyrir Lakers og Anthony Davis bætti við 23 stigum o 9 fráköst áður en hann fór til búningsklefa í lokin eftir að hafa fengið högg frá Kevon Looney. Davis var rúllað í hjólastól inn í klefa eftir að hann fann fyrir svima. Það voru samt engar staðfestar fréttir um það að hann hafi fengið heilahristing en Davis er afar óheppinn þegar kemur að meiðslum.

Næsti leikur er í Los Angeles en þar hefur Lakers liðið unnið alla fimm leiki sína í þessari úrslitakeppni.

New York Knicks hélt sér á lífi með 112-103 heimasigri á Miami Heat en staðan er því 3-2 fyrir Miami og næsti leikur er á heimavelli Heat liðsins.

Jalen Brunson spilaði allar 48 mínútur leiksins og var með 38 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar fyrir New York liðið. RJ Barrett skorað 26 stig og Julius Randle var með 24 stig.

New York var nítján stigum yfir í þriðja leikhluta en Miami náði muninum aftur niður í tvö stig þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Heimamönnum tókst að klára leikinn og halda sér á lífi.

Jimmy Butler skoraði 19 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 7 fráköst hjá Miami en þetta var í fyrsta sinn sem hann skorar undir 25 stig í leik í þessari úrslitakeppni. Bam Adebayo var með 18 stig og Duncan Robinson bætti við 17 stigum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×