Aston Villa heldur í Evrópudrauma en vandræði Tottenham halda áfram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Douglas Luiz skoraði markið sem skildi liðin að í dag.
Douglas Luiz skoraði markið sem skildi liðin að í dag. Shaun Botterill/Getty Images

Aston Villa vann mikilvægan sigur er liðið tók á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur 2-1 og liðin eru nú jöfn að stigum í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar, en þetta var fjórða tap Tottenham í seinustu sex deildarleikjum.

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og Jacob Ramsey kom Aston Villa yfir strax á áttundu mínútu með góðu marki eftir stoðsendingu frá Leon Bailey.

Þrátt fyrir að hafa skapað sér góðar stöður það sem eftir lifði hálfleiksins náðu heimamenn ekki að bæta við mörkum og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Eins og svo oft áður á tímabilinu vöknuðu gestirnir í Tottenham til lífsins í síðari hálfleik. Framan af gekk þeim þó illa að skapa sér opin marktækifæri, en markahrókurinn Harry Kane fékk þó eitt slíkt en Emiliano Martinez sá við honum í marki Aston Villa.

Gestirnir nöguðu sig því ábyggilega í handabökin þegar Douglas Luiz tvöfaldaði forystu heimamanna með marki beint úr aukaspyrnu á 72. mínútu og brekkan orðin brött fyrir Tottenham.

Gestirnir fengu þó líflínu seint í leiknum þegar Emiliano Martinez braut á Harry Kane innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Kane steig sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi á seinustu mínútu venjulegs leiktíma, en nær komust gestirnir ekki og niðurstaðan varð 2-1 sigur Aston Villa.

Eins og áður segir eru liðin nú jöfn að stigum í sjötta og sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðin eru með 57 stig þegar þau eiga bæði tvo leiki eftir, en Tottenham situr þó ofar í töflunni á fleirum mörkum skoruðum því liðin eru með sömu markatölu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira