Í umfjöllun Sky sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) hafi þótt slíkt ávarp ganga gegn reglum söngvakeppninnar. Eurovision snúist um alþjóðlega skemmtidagskrá og hafi gert það frá upphafi. Úkraínumenn unnu keppnina í fyrra en hún er haldin í Liverpool í Bretlandi í ár vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
„Einn af hornsteinum keppninnar er ópólitískt eðli hennar,“ segir meðal annars í svari EBU. Það grundvallaratriði þýði að ekki sé hægt að leyfa Selenskí að ávarpa keppnina.
Segir EBU í svari sínu að ellefu úkraínskir listamenn, auk sigurvegara keppninnar frá því í fyrra í Kalush Orchestra muni koma fram á keppninni. Þá verði sjónvarpað frá 37 stöðum í Úkraínu.