Körfubolti

Báðir leikirnir í kvöld sýndir og allir oddaleikir

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James reynir að stöðva Stephen Curry í leik fimm í einvígi LA Lakers og Golden State Warriors. Lakers eru 3-2 yfir, einum sigri frá því að komast í úrslitaeinvígi við Denver Nuggets í vesturdeildinni.
LeBron James reynir að stöðva Stephen Curry í leik fimm í einvígi LA Lakers og Golden State Warriors. Lakers eru 3-2 yfir, einum sigri frá því að komast í úrslitaeinvígi við Denver Nuggets í vesturdeildinni. Getty/Thearon W. Henderson

Það er heldur betur farið að hitna í kolunum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta og verður hægt að horfa á stórleikina tvo í kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Miami Heat á möguleika á að slá út New York Knicks í fyrri leik kvöldsins en staðan í því einvígi, í undanúrslitum austurdeildarinnar, er 3-2. Leikurinn hefst klukkan 23:30 að íslenskum tíma.

Stuðningsmenn Knicks hafa ekki átt því að venjast síðustu fjölmörg ár að lið þeirra berjist meðal þeirra bestu í NBA-deildinni og hvernig sem fer í kvöld er árangurinn betri en síðasta áratug.

Klukkan tvö í nótt heldur svo uppgjör Stephen Curry og LeBron James, og félaga þeirra í Golden State Warriors og Los Angeles Lakers, áfram. Búist er við því að Anthony Davis mæti til leiks með Lakers eftir að hafa endað í hjólastól eftir höfuðhögg í síðasta leik.

Lakers er komið í þá stöðu að geta slegið meistarana út, á heimavelli, en ef Golden State vinnur þurfa liðin að mætast í oddaleik í San Francisco.

Ef til oddaleiks kemur þá mun hann fara fram á sunnudag, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þar verður einnig sýndur oddaleikur Philadelphia 76ers og Boston Celtics, og á mánudagskvöld verður sýndur oddaleikur Miami Heat og Knicks ef til hans kemur.

Denver Nuggets, deildarmeistarar vesturdeildarinnar, eru eina liðið sem þegar hefur tryggt sig áfram í úrslitaeinvígi vesturdeildar eftir að hafa slegið út Phoenix Suns, 4-1.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×