„Við vorum í gær að setja upp fjölda mælitækja og erum að fylgjast stöðugt með þessu,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við fréttastofu. Fylgst er með stöðu mála með vefmyndavélum og hitamyndavélum. „Vaktstjórinn okkar sér hitann þarna stöðugt.“
Boraðar hafi verið holur til þess að fylgjast með hitastiginu, sjá nákvæmlega hvað er í gangi og hvernig það breytist. „Það voru tvær eða þrjár svoleiðis holur og svo erum við með mæla í yfirborðinu líka þannig við fylgjumst með öllum breytingum í malbikinu,“ segir hann.
„Við þurfum að vita nákvæmlega hvað þetta er og hvort við þurfum að bregðast við þessu á einhvern hátt, koma þessu frá veginum eða hvað við gerum. Ef þetta rís upp nær asfaltinu þá er það ekki gott.“
Holurnar séu á 2,4 til 2,8 metra dýpi. „Hitinn þar var sjötíu gráður en það er bara eðlilegur hiti í malbikinu sjálfu.“
Aðspurður um hvað geti gerst ef jarðhitinn færist nær malbikinu segir G. Pétur:
„Það fer eftir því hvað hitinn er mikill en það hefur þá áhrif á yfirborðið, gæti skemmt það og skapað hættu. En við skoðum þetta vel og bregðumst við.“