Enski boltinn

De Gea fær gull­hanskann sama hvað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
David De Gea hefur átt áhugavert tímabil.
David De Gea hefur átt áhugavert tímabil. Vísir/AP

Markvörður Manchester Untied, David De Gea, hefur fengið á sig 41 mark í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Enginn markvörður deildarinnar hefur hins vegar haldið marki sínu jafn oft hreinu og Spánverjinn.

Man United vann 2-0 sigur á Úlfunum í gær, laugardag. Var það í sextánda skipti sem De Gea hélt marki sínu hreinu. Það er, spilaði leik án þess að fá á sig mark.

Sú staðreynd kemur mörgum á óvart þar sem Man United hefur verið duglegt að leka mörkum, þá sérstaklega á útivelli. Leikirnir væru sautján talsins ef De Gea hefði ekki gert sig sekan um slæm mistök gegn West Ham United um síðustu helgi.

Gullhanskinn eru verðlaun sem fara til þess markvarðar sem hefur haldið hvað oftast hreinu í ensku úrvalsdeildinni. Engin verðlaun eru veitt fyrir að fá á sig fæst mörk. Ef tveir eða fleiri markverðir hafa haldið marki sínu jafn oft hreinu þegar tímabilinu lýkur þá fara verðlaunin til þess sem spilaði fæsta leiki.

Séu menn með jafn marga spilaða leiki og jafn marga leiki þar sem þeir héldu hreinu þá einfaldlega báðir, eða allir, gullhanskann.

Þegar flest lið deildarinnar eiga þrjá leiki eftir er ljóst að enginn getur toppað De Gea og þarf hann aðeins að halda hreinu í einum af síðustu þremur leikjum sínum til að tryggja sér gullhanskann.

De Gea hefur eins og áður sagði haldið marki sínu hreinu 16 sinnum. Þar á eftir koma Alisson Becker [Liverpool], Aaron Ramsdale [Arsenal] og Nick Pope [Newcastle United] en allir hafa haldið marki sínu hreinu 13 sinnum.

Pope hefur fengið á sig fæst mörk eða 31 talsins, þar á eftir er Ramsdale með 39 á meðan De Gea hefur fengið á sig 41 og Alisson 42 mörk.

Mikið hefur verið rætt um framtíð De Gea en sem stendur verður hann samningslaus í sumar. Erik Ten Hag, þjálfari Man Utd, hefur lýst yfir áhuga á að halda Spánverjanum hjá félaginu en vitað er að markvörðurinn mun þurfa að taka á sig gríðarlega launalækkun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×