Enski boltinn

„Í dag þurfum við að biðjast af­sökunar á frammi­stöðunni“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Niðurlútur Arteta.
Niðurlútur Arteta. EPA-EFE/NEIL HALL

Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, viðurkenndi eftir 0-3 tap gegn Brighton & Hove Albion að möguleikar þeirra á að landa enska meistaratitlinum væru svo gott sem úr sögunni. Þá sagði hann að sínir menn ættu að biðjast afsökunar.

„Í dag þurfum við að biðjast afsökunar á frammistöðunni þar sem frammistaðan í síðari hálfleik var ekki boðleg,“ sagði sá spænski eftir leik.

„Tölfræðilega er það enn möguleiki og þetta er fótbolti en það er ómögulegt að hugsa um það í dag. Við þurfum að hugsa um úrslitin og frammistöðuna í síðari hálfleik. Þurfum að skilja af hverju hún var eins og hún er, þurfum að bregðast öðruvísi við,“ sagði Arteta um titilvonir Arsenal.

Hann sagði einnig að sínir menn hefðu ekki sýnt nein viðbrögð eftir að þeir lentu undir.

„Liðið hrundi, leikmenn höfðu engin svör.“

„Þú þarft að gera mikið af mögnuðum hlutum, ótrúlegum hlutum, til að vera í 2. sæti í þessari deild yfir 10 mánaða tímabil. En ef liðið sýnir á sér hliðar eins og í dag þá þarf að fara yfir það,“ sagði Arteta að endingu.

Arteta nældi sér í gult spjald í leiknum.EPA-EFE/NEIL HALL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×