Erlent

Ein um­fangs­mesta á­rásin á Kænu­garð hingað til

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Loftvarnir Úkraínumanna virðast hafa náð að hrinda árás Rússa á Kænugarð í nótt.
Loftvarnir Úkraínumanna virðast hafa náð að hrinda árás Rússa á Kænugarð í nótt. AP/Andrew Kravchenko

Rússar gerðu í gærkvöldi og í nótt eina hörðustu loftárásina á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, til þessa. Þetta er í áttunda sinn í þessum mánuði sem flaugum er skotið á borgina og drónum beitt en yfirmaður hersins í Kænugarði, Serhiy Popko, segir að í þetta sinn hafi árásin verið afar hörð.

Loftvarnakerfi Kænugarðs virðast þó hafa náð að skjóta flestar flauganna niður en töluvert tjón hefur þó hlotist af því þegar brak úr flaugum og drónum lenti á íbúðarbyggingum. 

Ekki hafa borist fregnir af mannfalli en þrír eru sagðir sárir. 

Borgarstjórinn Vitali Klitschko segir brak víða í miðborginni og meðal annars í dýragarði borgarinnar. 

Volodomír Selenskí Úkraínuforseti hefur síðustu daga verið á ferð um Evrópu þar sem hann hefur hitt hvern þjóðarleiðtogann á eftir öðrum, nú síðast var hann í Bretlandi á fundum með Rishi Sunak forsætisráðherra.

 Tilgangur ferðarinnar er að afla enn meiri stuðnings við varnarbaráttuna heima fyrir. 

Frá því Rússar hófu innrás sína í Úkraínu 24. febrúar á síðasta ári hafa þúsundir látið lífið, hermenn jafnt sem almennir borgarar. Borgir og bæir hafa verið lagðir í rúst og um 8,2 milljónir Úkraínumanna hafa neyðst til að flýja átökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×