Árás Rússa á Kænugarð í nótt var meðal þeirra allra umfangsmestu. Átján flaugum var skotið að höfuðborginni en á meðal þeirra voru sex svokallaðar ofurhljóðfráar flaugar en það eru flaugar sem ferðast á margföldum hljóðhraða og Rússar hafa stært sig af því að þær komist framhjá loftvarnakerfum. Úkraínumenn segjast þó hafa náð að skjóta þær niður í nótt, allar með tölu, en þótt loftvarnakerfið hafi náð þeim áður en þær lentu á jörðu niðri þá mynduðust engu að síður heljarinnar sprengingar í lofti með tilheyrandi drunum. Hætta skapaðist á jörðu niðri þegar brak úr flaugunum féll til jarðar.
Tonight, russia again attacked Ukraine.
— Ukrainian Air Force (@KpsZSU) May 16, 2023
- 6 Kinzhal aeroballistic missiles
- 9 Kalibr missiles
- 3 ground-launched missiles
- drones
ALL TARGETS SHOT DOWN.
Vitaliy Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, segir að fjöldi fólks hafi leitað skjóls í sprengjubyrgjum og að hann viti ekki til þess að neinn hafi látist í árásunum. Minnst þrír meiddust þó þegar brak úr flaugunum féll til jarðar. Viðmælandi BBC segir sjónarspilið í nótt hafa verið eins og sena úr Star Wars en Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari, sem býr í Kænugarði er einn af þeim sem vaknaði skelfingu lostinn.
„Maður sér ljós á himninum og eldflaugar fara frá jörðinni og upp að reyna að skjóta eitthvað niður og maður veit í rauninni ekkert hvað er að gerast þegar þetta gengur allt yfir.“
Óskar er þakklátur fyrir loftvarnakerfið sem hafi enn einu sinni sannað gildi sitt eftir svefnlitla nótt.
„Við vöknum um klukkan þrjú við flauturnar, þær byrja þá, en síðan hálftíma, fjörutíu mínútum seinna þá heyri ég fyrstu sprengingarnar og síðan stuttu eftir það, þá fer allt af stað. Ég hef aldrei, allavega ekki í stríðinu, orðið fyrir eins miklum [áhrifum] af sprengingum. Alveg svakaleg, tugir sprengja sem gerðust þarna á tveggja klukkutíma bili. Það var mjög ógnvekjandi að finna sprengjuhvellina fara í gegnum mann.“
Segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari í Kænugarði.