Körfubolti

Doc Rivers rekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Doc Rivers þjálfar lið Philadelphia 76ers ekki áfram.
 Doc Rivers þjálfar lið Philadelphia 76ers ekki áfram. Getty/Tim Nwachukwu

Philadelphia 76ers hefur ákveðið að reka þjálfara sinn Doc Rivers aðeins nokkrum dögum eftir að liðið datt úr úr úrslitakeppni NBA.

Þriðja árið í röð komst 76ers ekki í gegnum undanúrslit Austurdeildarinnar en liðið tapaði 112-88 í oddaleik á móti Boston Celtics eftir að hafa verið 3-2 yfir í einvíginu.

Þjálfaraleit 76ers er farin í gang og eru þeir Mike Budenholzer, Sam Cassell, Mike D'Antoni, Nick Nurse, Frank Vogel og Monty Williams orðaðir við starfið.

Undir stjórn Rivers þá vann Philadelphia 76ers 154 leiki og tapaði 82 sem gerir 65 prósent sigurhlutfall.

Liðið vann 54 deildarleiki í vetur sem er besti árangur þess síðan 2000-01 tímabilið. Sixers liðið var eitt af þremur liðum í deildinni sem var á topp tíu bæði sóknar- og varnartölfræði.

Þetta var sextánda tímabilið hjá Rivers þar sem hann vinnur fleiri leiki en hann tapar en hann hefur tíu sinnum tapað leik sjö þar af fimm slíkum leikjum í röð. Fyrir vikið hefur hann ekki náð eins góðum árangri í úrslitakeppninni og í deildarkeppninni.

Milwaukee Bucks, Phoenix Suns, Toronto Raptors og Detroit Pistons eru líka öll að leita að nýjum þjálfurum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×