Körfubolti

San Antonio Spurs vann NBA ­lotteríið og það vita allir hvern þeir taka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Wembanyama er einstakur leikmaður og það hefur hann sýnt og sannað með liði Metropolitans 92 í frönsku A-deildinni.
Victor Wembanyama er einstakur leikmaður og það hefur hann sýnt og sannað með liði Metropolitans 92 í frönsku A-deildinni. Getty/Christian Liewig

San Antonio Spurs verður með fyrsta valrétt í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfubolta en það varð ljóst þegar dregið var um röðina í nótt.

Spurs liðið tapaði sextíu leikjum í deildarkeppninni, var með lélegasta árangurinn í Vesturdeildinni og því voru talsverðar líkur á að nafn Spurs kæmi upp úr pottinum.

Næst á eftir Spurs munu velja Charlotte Hornets, Portland Trail Blazers, Houston Rockets og Detroit Pistons.

Þetta skiptir gríðarlega miklu máli að þessu sinni því í boði er að velja franska undrabarnið Victor Wembanyama.

Wembanyama þykir eitt mesta efni síðan að LeBron James kom inn í NBA-deildina árið 2003. Menn hafa verið að tala um hann síðan að hann var aðeins fjórtán ára gamall.

Hinn 221 sentímetra hái Wembanyama rekur boltann eins og bakvörður, skýtur eins og besta skytta og skilar líka stigum undir körfunni. Hann á að geta skotið hvenær sem er enda er enginn að fara verja skotið hans fyrir utan þriggja stiga línuna.

Stóra áhyggjuefnið er hvernig skrokkurinn ræður við að spila í jafnerfiðri deild og NBA er.

Wembanyama hefur þegar spilað tvö meistaraflokkstímabil í frönsku A-deildinni en í vetur var hann hjá Metropolitans 92. Hann er með 21,6 stig, 10,4 fráköst og 2,4 stoðsendingar í leik í frönsku deildinni í vetur.

Hann er líka kominn í franska landsliðið og í sínum fyrsta A-landsleik í nóvember í fyrra þá var hann með 20 stig og 9 fráköst í 90-65 sigri á Litháen.

Það vita því allir hvern San Antonio Spurs er að fara að velja í nýliðavalinu sem verður 22. júní næstkomandi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×