Körfubolti

Pa­vel gaf gullið sitt

Aron Guðmundsson skrifar
Pavel Ermolinski, þjálfari Tindastóls, gefur af sér
Pavel Ermolinski, þjálfari Tindastóls, gefur af sér Vísir/Skjáskot

Tinda­stóll varð í gær­kvöldi Ís­lands­meistari karla í körfu­knatt­leik í fyrsta skipti eftir 82-81 sigur á Val í odda­leik að Hlíðar­enda. Stólarnir fögnuðu vel og ræki­lega eftir leik og heppinn ungur stuðnings­maður fékk verð­launa­pening Pa­vels Er­molinski, þjálfara Tinda­stóls.

Sú stund hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum en Pavel tók við Tindastól á miðju tímabili og stýrði því til sigurs í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Í þann mund sem Stólarnir voru hver af öðrum að lyfta Íslandsmeistaratitlinum við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinni barst myndavélin á Pavel í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pavel lyftir Íslandsmeistaratitlinum, heldur síðan af verðlaunapallinum, tekur verðlaunapeninginn af sér og setur hann á ungan stuðningsmann sem á nú allt í einu afar sögulegan verðlaunapening.

Þetta er eitthvað sem Pavel hafði tekið upp á sem leikmaður á sínum tíma en þar naut hann mikillar velgengni. Í samtali við MBL árið 2016 ræddi hann þá nálgun sína að gefa ungum stuðningsmönnum medalíurnar sínar.

„Ég þarf ekki medal­í­ur til að minna mig á minn­ing­arn­ar og sigrana,“ sagði Pavel í samtali við MBL árið 2016. „Medalí­an er stór­mál fyr­ir krakk­ana og þegar ég var á þeirra aldri leit ég upp til íþrótta­manna og þótti vænt um at­hygli frá þeim. Ef sig­ur­laun­in gleðja krakk­ana gleður það mig meira en medalí­an sjálf.“

Myndband af því þegar að Pavel lætur ungan stuðningsmann fá medalíuna sína í gærkvöldi má sjá hér fyrir neðan:

Klippa: Pavel gefur ungum stuðningsmanni verðlaunapeninginn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×