Hlífar Óli Dagsson er einn af aðal stuðningsmönnum Tindastóls, hann hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli sem vallarþulur í Síkinu í kringum körfuboltaleiki félagsins.
Hlífar hafði góða ástæðu til þess að fagna í gær þegar að Tindastóll tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í körfubolta með sigri á Val í oddaleik liðanna í Subway deildinni sem fór fram í Origohöllinni að Hlíðarenda.
Þessi flotti Sauðkrækingur fagnaði vel og innilega með sínum mönnum í leikslok, fékk gullmedalíuna sína en það sem við tók eftir það er til merkis um það hvaða heiðursmann Hlífar hefur að geyma.
Hlífar tók sig nefnilega til og fór að tína upp rusl og dósir með sjálfboðaliðum Vals eftir leik. Í samtali við Vísi segir faðir hans, Dagur Þór Baldvinsson, að Hlífar sé í skýjunum með Íslandsmeistaratitil sinna manna sem Sauðkrækingar munu fagna næstu dagana, jafnvel vikurnar.