Fótbolti

Meistaraþynnkan hrjáði Börsunga

Aron Guðmundsson skrifar
Spænski meistaratitillinn fór á loft á Nou Camp í kvöld.
Spænski meistaratitillinn fór á loft á Nou Camp í kvöld. Vísir/Getty

Ný­krýndir Spánar­meistarar í Barcelona töpuðu í kvöld gegn Real Sociedad á heima­velli í spænsku úr­vals­deildinni.

Börsungar höfðu tryggt sér titilinn í spænsku úr­vals­deildinni í síðustu um­ferð gegn erki­fjendunum í Espanyol og segja mætti að þeir hafi þjáðst af svo­kallaðri meistara­þynnku í leiknum gegn Sociedad í kvöld.

Mikel Merino kom gestunum frá Sociedad yfir strax á 5.mínútu leiksins eftir stoð­sendingu frá Alexander Sor­loth og á 72.mínútu kom téður Sor­loth boltanum sjálfur í netið og tvö­faldaði um leið for­ystu Sociedad.

Robert Lewandowski, sóknar­maður Barcelona, minnkaði muninn fyrir heima­menn á síðustu mínútu venju­legs leik­tíma og reyndist það of seint fyrir Börsunga til þess að þeir næðu fram jafn­tefli.

Loka­tölur á Nou Camp því 2-1 sigur Real Sociedad en það kemur ekki að sök fyrir Börsunga sem hafa, líkt og áður sagði, nú þegar tryggt sér titilinn.

Þrátt fyrir tapið gátu Börsungar leyft sér að gleðjast eftir leik því þá fór fram af­hending bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×