Reuters-fréttastofan hefur eftir hvítrússneska ríkisútvarpinu að Pratasevitsj hafi skrifað undir öll tilskilin gögn til þess að hljóta náðun. „Ég er ótrúlega þakklátur landinu og auðvitað forsetanum persónulega fyrir þessa ákvörðun. Þetta eru auðvitað frábærar fréttir,“ á hann að hafa sagt.
Pratasevitsj var dæmdur í fangelsi fyrir hryðjuverkastarfsemi, að skipuleggja óeirðir og að meiða æru Alexanders Lúkasjenka forseta fyrr í þessum mánuði.
Handtaka Pratasevitsj vakti heimsathygli fyrir tveimur árum. Hann var um borð í flugvél Ryanair á leið frá Aþenu í Grikklandi til Vilníusar í Litháen þegar hvítrússnesk yfirvöld skipuðu flugmönnunum að lenda í Minsk vegna meintrar sprenguhótunar. Þegar vélin lenti var Pratasevitsj og Sofia Sapega, kærasta hans, leidd út og handtekin.
Evrópusambandið beitti Hvítrússa refsiaðgerðum eftir handtökuna. Vestrænir ráðamenn sökuðu stjórn Lúkasjenka forseta um að ræna flugvélinni.
Pratasevitsj var látinn játa þátttöku í mótmælum gegn ríkisstjórninni og ráðabrugg um að steypa Lúkasjenka af stóli með tárin í augunum í myndbandsupptöku sem var sýnd í ríkisfjölmiðlum. Stjórnarandstöðuleiðtogar sem eru í útlegð segja að Pratasevitsj hafi verið þvingaður til að játa.

Framseld til Rússlands
Tveir fyrrverandi samstarfsmenn Pratasevitsj hjá fréttaveitunni Nexta sem fjallaði ítarlega um fjöldamótmælin gegn Lúkasjenka eftir umdeildar kosningar árið 2020 voru dæmdir í tuttugu og nítján ára fangelsi að þeim fjarstöddum á dögunum. Nexta var lýst hryðjuverkasamtök af stjórnvöldum í fyrra.
Sapega var dæmd í sex ára fangelsi fyrir að æsa til mótmælanna gegn stjórnvöldum í fyrra. Hún er rússneskur ríkisborgari og féllust stjórnvöld í Minsk á að framselja hana til Rússlands í síðasta mánuði, að sögn rússneska fréttavefsins Meduza.
Eftir að Sapega var dæmd í maí í fyrra birtust skilaboð í nafni Pratasevitsj á samfélagsmiðlinum Telegram þar sem því var haldið fram að þau væru löngu skilin að skiptum og að hann væri giftur annarri konu. AP-fréttastofan segir ekki ljóst hvort að það sé rétt eða hvort að Pratasevitsj hafi skrifað það af fúsum og frjálsum vilja.