Erlent

Írar fyrstir til að krefjast við­varana á á­fengis­um­búðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Reglurnar taka gildi árið 2026.
Reglurnar taka gildi árið 2026. Getty/NurPhoto/Artur Widak

Stjórnvöld á Írlandi hafa ákveðið að skikka áfengisframleiðendur til að setja viðvörunarmerkingar á vörur sínar þar sem gert er grein fyrir áfengisinnihaldi, kaloríufjölda og áhrifum áfengisneyslu á aukna áhættu á krabbameinum og lifrarsjúkdómum.

Um er að ræða fyrstu löggjöf sinnar tegundar í heiminum en heilbrigðisráðherrann Stephen Donnelly undirritaði hana í dag og sagðist hlakka til þess að sjá önnur ríki feta í fótspor Íra.

Lögin taka ekki gildi fyrr en 22. maí 2026, til að gefa framleiðendum tækifæri til að grípa til ráðstafana. 

„Þessar upplýsingar gera okkur kleift að taka upplýsta ákvörðun um okkar eigin áfengisneyslu. Umbúðir annarra matvara og drykkja innihalda nú þegar heilbrigðisupplýsingar og heilbrigðisviðvaranir, þegar við á. Þessi löggjöf gerir sömu kröfur til áfengra drykkja,“ sagði Donnelly.

Á umbúðunum verður frá 2026 einnig að finna viðvörun um áhrif áfengisneyslu á fóstur og veffang upplýsingasíðu heilbrigðisyfirvalda um áfengisneyslu.

Áfengisneysla á Írlandi náði hámarki árið 2001 þegar meðaldrykkja nam 14,3 lítrum á einstakling. Í dag er neyslan 10,2 lítrar, að meðaltali.

Áfengisframleiðendur á Ítalíu, Spáni og sex öðrum Evrópuríkjum hafa mótmælt fyrirætlununum harðlega og segja lagasetninguna beina árás á afkomu þeirra. Þeir mótmæla því ekki síst að Evrópusambandið hafi ekki sett sig upp á móti löggjöfinni.

Umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×