Erlent

Segjast hafa tekið rúss­neskan bæ undir sína stjórn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rússnesku þorpin hafa áður orðið fyrir eldflaugarárásum. Úkraínumenn hafa ávallt þvertekið fyrir árásirnar.
Rússnesku þorpin hafa áður orðið fyrir eldflaugarárásum. Úkraínumenn hafa ávallt þvertekið fyrir árásirnar. Stringer/Anadolu Agency/Getty Images)

Sam­tök hópa sem and­snúnir eru rúss­neskum yfir­völdum full­yrða að þeir hafi náð undir sína stjórn rúss­neska bænum Kozinka sem stað­settur er í Bel­gor­od héraði skammt frá landa­mærum landsins að Úkraínu. Hóparnir segjast einnig hafa ráðist á nágrannabæinn Gray­vor­on.

Í um­fjöllun Guar­dian um málið kemur fram að sam­tök sem kenni sig við Frelsun Rúss­lands (e. The Freedom of Russia Legion) hafi lýst á­byrgð á á­rásunum. Réðust þau yfir landamærin frá Úkraínu og á bæina.

Sam­tökin hafa það að yfir­lýstu mark­miði sínu að frelsa Rúss­land undan stjórn Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta. Breski miðillinn segir að auk sam­takanna hafi hópur rúss­neskra sjálf­boða­liða einnig tekið þátt í á­rásunum.

Ekki er ljóst á þessum tíma­punkti hversu margir hafa særst eða fallið í árásunum. Í um­fjöllun breska miðilsins kemur fram að mynd­bönd frá landa­mæra­bænum Gray­vor­on bendi til að mann­fall hafi orðið.

Jafn­framt er fullyrt í um­fjöllun Guar­dian að bæði úkraínsk og rúss­nesk stjórn­völd hafi stað­fest að barist hafi verið við landa­mærin. Er­lendum fjöl­miðlum hefur ekki tekist að stað­festa hvort að eigin­leg land­taka hafi átt sér stað líkt og rúss­nesku sam­tökin full­yrða.

Í til­kynningu á sam­fé­lags­miðlum frá sam­tökunum, sem beint er til rúss­neskra borgara, segjast sam­tökin vera hlið­holl Rússum. „Við erum Rússar líkt og þið,“ segir í til­kynningunni. Þar er full­yrt að mark­miðið sé að binda enda á ein­ræði í landinu.

Mark­miðið sé að dreifa at­hyglinni

Í um­fjöllun breska miðilsins kemur fram að neyðar­á­standi hafi verið lýst yfir af héraðs­stjórn í Bel­gor­od héraði. Haft er eftir héraðs­stjóra að rúss­neski herinn muni skerast í leikinn vegna á­rásanna.

Þá kemur fram í til­kynningu frá rúss­neskum stjórn­völdum að Pútín Rúss­lands­for­seta hafi verið gert við­vart um á­rásirnar. Stjórn­völd telji að á­rásirnar séu gerðar með því mark­miði að beina at­hyglinni frá hörðum bar­dögum Úkraínu­manna og Rússa í Bak­hmut borg í Úkraínu.

Úkraínsk stjórn­völd hafa þver­tekið fyrir að tengjast hópunum með nokkrum hætti. Í yfir­lýsingu stjórn­valda segir að hóparnir starfi sjálf­stætt, án nokkurra tenginga við úkraínska herinn.

Harðir bar­dagar hafa geysað í Bak­hmut undan­farnar vikur og mánuði. Leið­togi rúss­neska Wagner mála­liða­hópsins, Yev­geny Prigoz­hin, full­yrti um helgina að Bak­hmut hefði fallið í hendur Rússa. Borgin yrði því af­hent rúss­neska hernum fyrir næstu mánaðar­mót. Úkraínu­menn segja bar­daga enn standa yfir um borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×