Fjórir þeirra sem voru handteknir voru teknir í Madríd vegna gruns um að hafa hengt brúðu í líki leikmannsins fram af brú þar í borg í janúar á þessu ári í aðdraganda borgarslags Real og Atlético Madrid í spænska konungsbikarnum.
Þá voru þrír handteknir í Valencia eftir leik Valencia og Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni síðastliðinn sunnudag.
Þetta eru ekki einu dæmin um það að Vinícius Júnior er beittur kynþáttaníð í leikjum með Real Madrid. Leikmaðurinn hefur ítrekað mátt þola hróp og köll frá stuðningsmönnum annarra liða og hefur hann oftar en ekki látið í sér heyra og gagnrýnt aðgerðarleysi deildarinnar í þessum málum.
Nú síðast var greint frá því á Vísi hér í morgun að leikmaðurinn væri kominn með nóg og að hann íhugaði nú að yfirgefa spænsku deildina.