Erlent

Banda­ríkja­menn segjast hvorki hafa hvatt til né stutt á­rásir í Rúss­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld í Rússlandi hafa dreift myndum af búnaði sem þau segja hafa verið yfirgefinn eða skemmst í árásunum.
Yfirvöld í Rússlandi hafa dreift myndum af búnaði sem þau segja hafa verið yfirgefinn eða skemmst í árásunum. AP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum segjast hvorki hafa hvatt til né greitt fyrir árásum á skotmörk í Rússlandi, eftir að sögusagnir fóru á flug á samfélagsmiðlum og víðar að vopn frá Vesturlöndum hefðu verið notuð í árásunum.

Ráðist var á skotmörk í Belgorod á mánudag en Rússar sögðu árásirnar hafa endað með sigri hersveita þeirra á vopnuðum skæruliðum frá Úkraínu. Þá dreifðu Rússar myndum af yfirgefnum og skemmdum brynvörðum farartækjum frá Vesturlöndum, meðal annars bandarískum Humvee-bifreiðum.

Matthew Miller, talsmaður utanríkisráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi í gær að Bandaríkjamenn efuðust um sannleiksgildi sögusagna um að vopn frá Vesturlöndum hefðu verið notuð í árásunum. Það væri hins vegar undir Úkraínumönnum komið hvernig þeir höguðu sínum stríðsrekstri.

Nokkur þorp í Belgorod, við landamærin að Úkraínu, voru rýmd vegna árása. Rússar sögðu 70 bardagamenn hafa verið fellda og fullyrtu að þeir væru úkraínskir. Stjórnvöld í Kænugarði hafa hins vegar neitað því að standa að árásunum og tveir rússneskir uppreisnarhópar hafa lýst ábyrgðinni á hendur sér.

Samkvæmt yfirvöldum í Belgorod lést einn almennur borgari í árásunum og nokkrir særðust.

Umfjöllun BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×