Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - FH 3-2 | Andrea bjargaði Blikum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 24. maí 2023 22:05 Katrín Ásbjörnsdóttir og stöllur hennar í Breiðabliki eru aðeins einu stigi frá toppi Bestu deildarinnar. VÍSIR/VILHELM Andrea Rut Bjarnadóttir tryggði Breiðabliki dramatískan sigur á nýliðum FH, 3-2, þegar liðin mættust í strekkingsvindi á Kópavogsvelli 5. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Með sigrinum komust Blikar upp í 3. sæti deildarinnar en þeir eru aðeins einu stigi frá toppnum. Andrea skoraði sigurmark Breiðabliks þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en hún hafði komið inn á sem varamaður þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Nýliðar FH spiluðu vel í kvöld og hefðu átt skilið stig út úr leiknum. Hafnfirðingar vörðust á löngum köflum ágætlega og Aldís Guðlaugsdóttir átti stórgóðan leik í marki liðsins. Sóknir FH-inga voru ekki margar en mjög hættulegar með Mackenzie Marie George í broddi fylkingar. Hún skoraði bæði mörk FH í leiknum. Mackenzie kom FH yfir á 29. mínútu en Hafrún Rakel Halldórsdóttir jafnaði tíu mínútum síðar. Hildur Þóra Hákonardóttir kom Breiðabliki yfir á 76. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Mackenzie. Allt benti til þess að liðin myndu skilja jöfn en Andrea var á öðru máli og skoraði sigurmark Blika eftir sendingu frá besta manni þeirra í leiknum, Hafrúnu Rakel. Breiðablik var miklu meira með boltann í fyrri hálfleik og sótti meira en það vantaði einhvern sannfæringarkraft í þeirra aðgerðir. Agla María Albertsdóttir átti tvær ágætis tilraunir áður en FH náði forystunni á 29. mínútu. Markið kom nánast upp úr þurru. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir átti langa sendingu fram hægri kantinn á Mackenzie, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir hljóp hana uppi en missti hana svo aftur fram fyrir sig. Mackenzie reyndi skot nánast á endalínu sem Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks, missti klaufalega inn fyrir. Sex mínútum síðar fékk Esther Rós Arnarsdóttir dauðafæri en var alltof lengi að athafna sig og Vigdís Lilja bjargaði. Blikar jöfnuðu metin á 39. mínútu eftir mikla orrahríð að marki FH-inga. Vigdís Lilja átti þá frábæran sprett upp að endalínu vinstra megin, renndi boltanum fyrir á Öglu Maríu sem framlengdi hann á Katrínu Ásbjörnsdóttur sem átti skot í varnarmann, Karitas Tómasdóttir tók frákastið og átti skot sem Aldís Guðlaugsdóttir varði frábærlega í slána en boltinn hrökk fyrir Hafrúnu Rakel sem skallaði hann yfir línuna. Undir lok fyrri hálfleiks fékk Breiðablik tvö færi í röð eftir hornspyrnu Taylors Marie Ziemer. Fyrst varði Aldís frá Birtu og svo bjargaði Elísa Lana Sigurjónsdóttir á línu frá Toni Pressley. Seinni hálfleikurinn var mjög rólegur framan af. Hildigunnur fékk ágætis færi fyrir FH í upphafi hans en skaut framhjá. Á 65. mínútu komst Hafrún Rakel í dauðafæri eftir góða skyndisókn Breiðabliks en Aldís varði vel. Á 76. mínútu komst Breiðablik yfir í fyrsta sinn í leiknum. Agla María tók aukaspyrnu frá vinstri og sendi fyrir á teiginn þar sem Hildur Þóra var á undan Aldísi í boltann og skoraði. Hildur Þóra var ekki lengi í paradís því tveimur mínútum síðar missti hún boltann undir sig og Mackenzie nýtti sér það og jafnaði, 2-2. FH-ingar eygðu stig en Blikar fundu leið í gegnum vörn þeirra í uppbótartíma. Hafrún Rakel komst upp að endamörkum vinstra megin og lagði boltann út í vítateiginn á Andreu sem skoraði af yfirvegun og sá til þess að Breiðablik fékk öll stigin þrjú. Andrea: Þá kemur maður bara inn með stæl Andrea Rut Bjarnadóttir gekk í raðir Breiðabliks frá Þrótti fyrir þetta tímabil.breiðablik Andrea Rut Bjarnadóttir var að vonum ánægð eftir að hafa skorað sigurmark Breiðabliks gegn FH á elleftu stundu í kvöld. „Þetta er allt í móðu. Það kom bolti frá Hafrúnu [Rakel Halldórsdóttur] út í teig og ég kláraði þetta í hornið. Þetta var geggjað,“ sagði Andrea eftir leik. Hún byrjaði á varamannabekknum í leiknum en svaraði fyrir sig með góðri innkomu. „Maður er alltaf svekktur að vera ekki í byrjunarliðinu en þá kemur maður bara inn með stæl,“ sagði Andrea. Henni fannst Blikar ekki vera upp á sitt besta í leiknum í kvöld. „Mér fannst við vera ákveðnari, í að ætla að skora, en þetta var alls ekki nógu góður leikur hjá okkur í heildina,“ sagði Andrea. Þrátt fyrir að hafa tapað tveimur af fyrstu fimm leikjum sínum er Breiðablik aðeins einu stigi frá toppi Bestu deildarinnar. „Þetta er ekki besta byrjunin en við erum að fara á ról og þetta verður allt gott núna,“ sagði Andrea að endingu. Guðni: Þær áttu svo sannarlega skilið að fá eitthvað fyrir sinn snúð Guðni Eiríksson var sáttur með frammistöðuna en ekki niðurstöðuna þegar FH sótti Breiðablik heim.vísir/hulda margrét Guðni Eiríksson, annar þjálfara FH, var sár og svekktur eftir tapið fyrir Breiðabliki. „Það var ótrúlega svekkjandi að fá á sig mark í uppbótartíma. Það var leiðinlegt fyrir leikmenn FH að fá ekkert út úr þessum leik því þær áttu svo sannarlega skilið að fá eitthvað fyrir sinn snúð,“ sagði Guðni eftir leik. En hvað var Guðni ánægður með hjá sínu liði í kvöld? „Vinnusemina, dugnaðinn og viljann til að liðinu þrjú stig,“ svaraði Guðni. Eins og við mátti búast sótti Breiðablik meira en sóknir FH voru mjög beittar með Mackenzie Marie George fremsta í flokki. „Hún átti góðan leik,“ sagði Guðni og bætti við að aðstæður hefðu sett strik í reikninginn í kvöld en mikill vindur var á annað markið. „Eins og ég sagði við þig fyrir leik átti ég von á því að þetta yrði leikur tveggja hálfleikja út af vindi og það varð raunin. Við vorum með vindinn í andlitið og þá geturðu ekki keyrt hátt á andstæðinginn þegar svo ber undir, ég tala nú ekki um gegn liði eins og Breiðabliki sem býr yfir miklum gæðum,“ sagði Guðni. Þrátt fyrir erfitt tap í kvöld er Guðni brattur fyrir framhaldið. „Ég held að FH-liðið hafi gert vel inni á vellinum en því miður hefur stigasöfnunin ekki fylgt því nægilega vel eftir. En við trúum því og vonum að það fari að skila sér,“ sagði Guðni að lokum. Besta deild kvenna Breiðablik FH
Andrea Rut Bjarnadóttir tryggði Breiðabliki dramatískan sigur á nýliðum FH, 3-2, þegar liðin mættust í strekkingsvindi á Kópavogsvelli 5. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Með sigrinum komust Blikar upp í 3. sæti deildarinnar en þeir eru aðeins einu stigi frá toppnum. Andrea skoraði sigurmark Breiðabliks þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en hún hafði komið inn á sem varamaður þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Nýliðar FH spiluðu vel í kvöld og hefðu átt skilið stig út úr leiknum. Hafnfirðingar vörðust á löngum köflum ágætlega og Aldís Guðlaugsdóttir átti stórgóðan leik í marki liðsins. Sóknir FH-inga voru ekki margar en mjög hættulegar með Mackenzie Marie George í broddi fylkingar. Hún skoraði bæði mörk FH í leiknum. Mackenzie kom FH yfir á 29. mínútu en Hafrún Rakel Halldórsdóttir jafnaði tíu mínútum síðar. Hildur Þóra Hákonardóttir kom Breiðabliki yfir á 76. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Mackenzie. Allt benti til þess að liðin myndu skilja jöfn en Andrea var á öðru máli og skoraði sigurmark Blika eftir sendingu frá besta manni þeirra í leiknum, Hafrúnu Rakel. Breiðablik var miklu meira með boltann í fyrri hálfleik og sótti meira en það vantaði einhvern sannfæringarkraft í þeirra aðgerðir. Agla María Albertsdóttir átti tvær ágætis tilraunir áður en FH náði forystunni á 29. mínútu. Markið kom nánast upp úr þurru. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir átti langa sendingu fram hægri kantinn á Mackenzie, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir hljóp hana uppi en missti hana svo aftur fram fyrir sig. Mackenzie reyndi skot nánast á endalínu sem Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks, missti klaufalega inn fyrir. Sex mínútum síðar fékk Esther Rós Arnarsdóttir dauðafæri en var alltof lengi að athafna sig og Vigdís Lilja bjargaði. Blikar jöfnuðu metin á 39. mínútu eftir mikla orrahríð að marki FH-inga. Vigdís Lilja átti þá frábæran sprett upp að endalínu vinstra megin, renndi boltanum fyrir á Öglu Maríu sem framlengdi hann á Katrínu Ásbjörnsdóttur sem átti skot í varnarmann, Karitas Tómasdóttir tók frákastið og átti skot sem Aldís Guðlaugsdóttir varði frábærlega í slána en boltinn hrökk fyrir Hafrúnu Rakel sem skallaði hann yfir línuna. Undir lok fyrri hálfleiks fékk Breiðablik tvö færi í röð eftir hornspyrnu Taylors Marie Ziemer. Fyrst varði Aldís frá Birtu og svo bjargaði Elísa Lana Sigurjónsdóttir á línu frá Toni Pressley. Seinni hálfleikurinn var mjög rólegur framan af. Hildigunnur fékk ágætis færi fyrir FH í upphafi hans en skaut framhjá. Á 65. mínútu komst Hafrún Rakel í dauðafæri eftir góða skyndisókn Breiðabliks en Aldís varði vel. Á 76. mínútu komst Breiðablik yfir í fyrsta sinn í leiknum. Agla María tók aukaspyrnu frá vinstri og sendi fyrir á teiginn þar sem Hildur Þóra var á undan Aldísi í boltann og skoraði. Hildur Þóra var ekki lengi í paradís því tveimur mínútum síðar missti hún boltann undir sig og Mackenzie nýtti sér það og jafnaði, 2-2. FH-ingar eygðu stig en Blikar fundu leið í gegnum vörn þeirra í uppbótartíma. Hafrún Rakel komst upp að endamörkum vinstra megin og lagði boltann út í vítateiginn á Andreu sem skoraði af yfirvegun og sá til þess að Breiðablik fékk öll stigin þrjú. Andrea: Þá kemur maður bara inn með stæl Andrea Rut Bjarnadóttir gekk í raðir Breiðabliks frá Þrótti fyrir þetta tímabil.breiðablik Andrea Rut Bjarnadóttir var að vonum ánægð eftir að hafa skorað sigurmark Breiðabliks gegn FH á elleftu stundu í kvöld. „Þetta er allt í móðu. Það kom bolti frá Hafrúnu [Rakel Halldórsdóttur] út í teig og ég kláraði þetta í hornið. Þetta var geggjað,“ sagði Andrea eftir leik. Hún byrjaði á varamannabekknum í leiknum en svaraði fyrir sig með góðri innkomu. „Maður er alltaf svekktur að vera ekki í byrjunarliðinu en þá kemur maður bara inn með stæl,“ sagði Andrea. Henni fannst Blikar ekki vera upp á sitt besta í leiknum í kvöld. „Mér fannst við vera ákveðnari, í að ætla að skora, en þetta var alls ekki nógu góður leikur hjá okkur í heildina,“ sagði Andrea. Þrátt fyrir að hafa tapað tveimur af fyrstu fimm leikjum sínum er Breiðablik aðeins einu stigi frá toppi Bestu deildarinnar. „Þetta er ekki besta byrjunin en við erum að fara á ról og þetta verður allt gott núna,“ sagði Andrea að endingu. Guðni: Þær áttu svo sannarlega skilið að fá eitthvað fyrir sinn snúð Guðni Eiríksson var sáttur með frammistöðuna en ekki niðurstöðuna þegar FH sótti Breiðablik heim.vísir/hulda margrét Guðni Eiríksson, annar þjálfara FH, var sár og svekktur eftir tapið fyrir Breiðabliki. „Það var ótrúlega svekkjandi að fá á sig mark í uppbótartíma. Það var leiðinlegt fyrir leikmenn FH að fá ekkert út úr þessum leik því þær áttu svo sannarlega skilið að fá eitthvað fyrir sinn snúð,“ sagði Guðni eftir leik. En hvað var Guðni ánægður með hjá sínu liði í kvöld? „Vinnusemina, dugnaðinn og viljann til að liðinu þrjú stig,“ svaraði Guðni. Eins og við mátti búast sótti Breiðablik meira en sóknir FH voru mjög beittar með Mackenzie Marie George fremsta í flokki. „Hún átti góðan leik,“ sagði Guðni og bætti við að aðstæður hefðu sett strik í reikninginn í kvöld en mikill vindur var á annað markið. „Eins og ég sagði við þig fyrir leik átti ég von á því að þetta yrði leikur tveggja hálfleikja út af vindi og það varð raunin. Við vorum með vindinn í andlitið og þá geturðu ekki keyrt hátt á andstæðinginn þegar svo ber undir, ég tala nú ekki um gegn liði eins og Breiðabliki sem býr yfir miklum gæðum,“ sagði Guðni. Þrátt fyrir erfitt tap í kvöld er Guðni brattur fyrir framhaldið. „Ég held að FH-liðið hafi gert vel inni á vellinum en því miður hefur stigasöfnunin ekki fylgt því nægilega vel eftir. En við trúum því og vonum að það fari að skila sér,“ sagði Guðni að lokum.