Þrjú mörk dæmd af í fjörugu jafn­tefli Brig­hton og Eng­lands­meistaranna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brighton vörnin hélt Håland í skefjum.
Brighton vörnin hélt Håland í skefjum. Nick Potts/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City gerðu 1-1 jafntefli við Brighton & Hove Albion í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. 

Fyrir leik hafði Pep Guardiola, þjálfari Man City, hrósað Roberto De Zerbi, þjálfara heimamanna, í hástert. 

Það má segja að ekkert hafi verið undir í kvöld, gestirnir höfðu tryggt sér titilinn og Brighton hafði í fyrsta skipti í sögu félagsins tryggt sér þátttöku í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Þrátt fyrir það var fyrri hálfleikur nokkuð skemmtilegur en báðir þjálfarar stilltu upp sínum sterkustu liðum ef frá er talið að Stefan Ortega var í markinu hjá Man City.

Danny Welbeck átti þrumuskot í marksúlurnar á marki Man City áður en Phil Foden kom gestunum yfir eftir snögga sókn. Erling Braut Håland fékk sendingu inn fyrir en lagði boltann á Foden sem renndi honum í netið.

Kaoru Mitoma hélt hann hefði jafnað metin skömmu síðar en markið dæmt af vegna hendi í aðdragandanum. Hinn 19 ára gamli Julio Enciso jafnaði hins vegar metin með mögnuðu marki á 38. mínútu. Hann lét vaða af löngu færi og söng boltinn í samskeytunum.

Undir lok fyrri hálfleiks kom Welbeck boltanum í netið þegar hann lyfti honum yfir Ortega úr þröngu færi en markið dæmt af vegna rangstöðu. Staðan því 1-1 í hálfleik og reyndust það lokatölur þar sem markið sem Håland skoraði í síðari hálfleik var einnig dæmt af. 

Eru þetta fyrstu stigin sem Man City tapar í deildinni síðan 18. febrúar þegar liðið gerði jafntefli við Nottingham Forest.

Að loknum 37 leikjum eru Englandsmeistararnir með 89 stig á meðan Brighton er í 6. sæti með 62 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira