Körfubolti

Hafa áhyggjur af Ja Morant eftir fjóra „kveðjupósta“ hans á Instagram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ja Morant er besti leikmaður Memphis Grizzlies og nýbúinn að skrifa undir risasamning.
Ja Morant er besti leikmaður Memphis Grizzlies og nýbúinn að skrifa undir risasamning. AP/Nikki Boertman

Einn besti leikmaður NBA-deildarinnar kveðjur sína nánustu og segir bless á samfélagsmiðlum. Það er ekkert skrítið að sumir hafi áhyggjur.

Bandaríski körfuboltamaðurinn Ja Morant hefur fengið mikla gagnrýni eftir að hafa verið tvisvar sinnum að veifa byssu á samfélagsmiðlum.

Morant var tekin í sátt eftir fyrra tilfellið og lofaði þá betrun. Eftir að hann sást aftur með byssu á netinu þá setti lið hans, Memphis Grizzlies, hann í ótímabundið bann.

Morant er einn besti leikmaður NBA-deildarinnar og sannkölluð stórstjarna. Hann var með 26,2 stig og 8,1 stoðsending að meðaltali í leik á nýloknu tímabili.

Búist er við því að hann missi styrktaraðila vegna málsins og einhverjir óttast um það að risasamningur hans sé í uppnámi.

Morant skrifaði undir langtímasamning við Memphis í júlí í fyrra og átti að fá 33,5 milljónir dollara fyrir næsta tímabil eða 4,7 milljarða í íslenskum krónum. Samningurinn hækkar á hverju ári og hann endar á því að fá 44,2 milljónir dollara tímabilið 2027-28 sem eru um 6,7 milljarðar íslenskra króna.

Það er því ekkert voða gaman að vera Ja Morant þessa dagana að gíma við eftirmála hegðun sinnar.

Þess vegna hafa margir áhyggjur af kappanum eftir að hann birti fjóra pósta á Instagram á stuttum tíma.

Á einum segist hann elska mömmu sína, á öðrum segist hann elska pabba sinn og á þeim þriðja segist hann elska dóttur sína. Á þeim fjórða og síðasta segir hann hins vegar bara bless.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×