Í dag var haldinn samstöðufundur fyrir starfsmenn BSRB í Mosfellsbæ sem eru í verkfalli. Kjaraviðræður bandalagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa lítið komist áfram.
Fundurinn var haldinn í félagsheimilinu Hlégarði og mættu um 150 manns þangað. Að sögn formanns starfsmannafélags Mosfellsbæjar var mikil samstaða meðal gesta fundarins en mikið lófatak mátti heyra í salnum í hvert sinn sem ræðumenn slepptu orðinu.

„Fólk er að sýna samstöðu og samfélagið er að sýna samstöðu. Hvorki við né aðrir skiljum að við séum í þessari stöðu. Þetta er hræðileg staða. Þetta fólk sem er í verkfalli núna er að passa börnin okkar þannig við erum að rugla svolítið í því. En það verður bara að klára þetta. Það verður að klára þetta,“ segir Edda Davíðsdóttir, formaður starfsmannafélags Mosfellsbæjar.
Búið er að boða til verkfalla í 29 sveitarfélögum um land allt og verði ekki samið áður en þau hefjast munu 2.500 manns hafa lagt niður störf, mestmegnis ófaglærðir leikskólastarfsmenn. Formaður BSRB segir mikilvægt að sveitarfélögin fari að meta stöðuna og átta sig á því hver fórnarkostnaðurinn við að hlusta ekki á kröfur starfsfólk sé.

„Það er auðvitað markmiðið með verkfalli að knýja fram kröfur okkar við samningaborðið og við finnum að það eru mjög víðtæk áhrifin. Það hefur verið mjög mikill hugur í fólki og gríðarlega góð mæting á alla samstöðufundina. Þau standa keik og sterk saman í baráttunni,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Samningafundur BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga á föstudaginn í síðustu viku endaði á örlítið bjartari nótum en fundirnir á undan en þrátt fyrir það sá sáttasemjari deilunnar ekki tilefni til að boða til nýs fundar milli samningsaðila.