Vísitala neysluverðs var 590,6 stig í maí og hækkar um 0,39 prósent frá því í apríl. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 487,8 stig og hækkar um 0,14 prósent á milli mánaða.
Verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 0,8 prósent (áhrif á vísitöluna 0,12 prósent). Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 1,3 prósent (0,25 prósent) en flugfargjöld til útlanda lækkuðu hins vegar um 7,0 prósent (-0,15 prósent).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 9,5 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 8,4 prósent.
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í maí 2023, sem er 590,6 stig, gildir til verðtryggingar í júlí 2023. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 11.661 stig fyrir júlí 2023.