Athygli vekur að mun fleiri Íslendingar horfðu á lokakvöld Eurovsion í ár en á síðasta ári, um 160 þúsund manns samanborið við um 130 þúsund í fyrra. Árið 2022 komst íslenska atriðið „Með hækkandi sól“ í úrslitin en „Power“ með Diljá komst ekki upp úr undanriðli í ár.
Eins og í fyrra var áhorfið þó mun meira á undankeppnina. 260 þúsund manns fylgdust með henni, samanborið við 240 þúsund í fyrra.
Vinsælt í Bretlandi en ekki Úkraínu
Óhætt er að segja að Íslendingar séu Eurovision óðasta þjóð Evrópu. Ekkert annað land kemst nálægt sjónvarpshlutdeildinni. Í öðru sæti eru Norðmenn með 87,8 prósent, þá Finnar með 85,6 og Svíar með 82,3.
Af stórþjóðum Evrópu hafa Bretar lang mestan áhuga. Þar horfðu 63 prósent á lokakvöld Eurovision, tæplega tíu milljón manns og aukning um ellefu prósent frá fyrra ári. átta milljón Þjóðverja horfðu á lokakvöldið, fimm milljónir Ítala og Spánverja og rúmlega þrjár milljónir Frakka.

Áhorfið í Úkraínu var innan við 20 prósent, alls tæplega 600 þúsund manns. Áhorfið var einnig lítið í Ástralíu, tæplega 400 þúsund horfðu á lokakvöldið þar í landi.
Vinsælt hjá ungu fólki
Samanlagt horfðu 34 milljónir á undankeppnina í sjónvarpi og rúmlega 53 milljónir á lokakvöldið, aukning um eina milljón frá árinu áður.
Heildaráhorfið í Evrópu var tæplega 41 prósent. Keppnin var sérstaklega vinsæl hjá yngra fólki, frá 15 til 24 ára, þar sem áhorfið var 53,5 prósent.
Þá horfðu rúmlega tíu milljón manns á keppnina á opinberri Youtube rás EBU, sambandið evrópskra sjónvarpsstöðva. 45 milljón manns frá 232 löndum og svæðum horfðu á eitthvað efni af rásinni á meðan keppnin var í gangi.
Alls náði keppnin til 162 milljón manns.