Innlent

Mátti ekki banna börn í Mera­dölum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lögreglustjóri bannaði börnum yngri en 12 ára að mæta í Meradali í ágúst í fyrra.
Lögreglustjóri bannaði börnum yngri en 12 ára að mæta í Meradali í ágúst í fyrra.

Lög­reglu­stjóranum á Suður­nesjum var ekki heimilt að banna för barna yngri en 12 ára að gos­stöðvunum í Mera­dölum í ágúst 2022 í ljósi þess tíma sem leið frá því til­kynnt var um þau opin­ber­lega og þar til þau voru látin niður falla, þar sem ekki hafði verið tekið til skoðunar hvort aðrar laga­heimildir gætu helgað slíkt bann til lengri tíma.

Þetta kemur fram í á­liti um­boðs­manns Al­þingis. Lög­reglan tók á­kvörðun í ágúst um að for­eldrum með börn yngri en tólf ára yrði snúið frá leið A upp að gos­stöðvunum. Gos­stöðvarnar voru því bannaðar börnum yngri en tólf ára og vísaði lög­regla til þess að göngu­leiðin væri erfið, auk þess sem börn hefðu minna þol gagn­vart loft­mengun á svæðinu.

Beita þurfi tak­mörkunum af var­færni

Í á­liti um­boðs­manns segir meðal annars að víð­tækum heimildum lög­reglu­stjóra til þess að tak­marka ferða­frelsi borgara þar til hættu­stigi eða neyðar­stigi al­manna­varna væri lýst yfir þar til því yrði af­lýst, verði að beita af var­færni. Ekki megi ganga lengra en þörf er hverju sinni til að af­stýra hættu.

„Það varð því niður­staða hans að ó­tíma­bundin fyrir­mæli lög­reglu­stjóra á þá leið að banna för barna undir 12 ára aldri að gos­stöðvunum í Mera­dölum hefðu, í ljósi þess tíma sem leið frá því að til­kynnt var um þau opin­ber­lega þar til þau voru látin niður falla, ekki sam­rýmst þeim sjónar­miðum sem ættu við um heimild hans á grund­velli laga um al­manna­varnir. Í því sam­bandi benti hann á að ekki varð séð að tekið hefði verið til skoðunar hvort aðrar laga­heimildir gætu helgað slíkt bann til lengri tíma.“

Þá tók um­boðs­maður fram að það hefði verið í sam­ræmi við vandaða stjórn­sýslu­hætti að leitast við að kynna um­rædd fyrir­mæli opin­ber­lega með frétta­til­kynningum og birtingu upp­lýsinga á raf­rænum miðlum. Hins vegar benti hann á að það myndi einnig teljast til vandaðra stjórn­sýslu­hátta að leitast við að kynna fyrir al­menningi lok banns með jafn ítar­legum hætti og gert hefði verið við upp­haf­lega á­kvörðun, svo sem með sam­bæri­legum til­kynningum til fjöl­miðla, en ekki lá fyrir hvort það hefði verið gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×