Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis. Lögreglan tók ákvörðun í ágúst um að foreldrum með börn yngri en tólf ára yrði snúið frá leið A upp að gosstöðvunum. Gosstöðvarnar voru því bannaðar börnum yngri en tólf ára og vísaði lögregla til þess að gönguleiðin væri erfið, auk þess sem börn hefðu minna þol gagnvart loftmengun á svæðinu.
Beita þurfi takmörkunum af varfærni
Í áliti umboðsmanns segir meðal annars að víðtækum heimildum lögreglustjóra til þess að takmarka ferðafrelsi borgara þar til hættustigi eða neyðarstigi almannavarna væri lýst yfir þar til því yrði aflýst, verði að beita af varfærni. Ekki megi ganga lengra en þörf er hverju sinni til að afstýra hættu.
„Það varð því niðurstaða hans að ótímabundin fyrirmæli lögreglustjóra á þá leið að banna för barna undir 12 ára aldri að gosstöðvunum í Meradölum hefðu, í ljósi þess tíma sem leið frá því að tilkynnt var um þau opinberlega þar til þau voru látin niður falla, ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem ættu við um heimild hans á grundvelli laga um almannavarnir. Í því sambandi benti hann á að ekki varð séð að tekið hefði verið til skoðunar hvort aðrar lagaheimildir gætu helgað slíkt bann til lengri tíma.“
Þá tók umboðsmaður fram að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leitast við að kynna umrædd fyrirmæli opinberlega með fréttatilkynningum og birtingu upplýsinga á rafrænum miðlum. Hins vegar benti hann á að það myndi einnig teljast til vandaðra stjórnsýsluhátta að leitast við að kynna fyrir almenningi lok banns með jafn ítarlegum hætti og gert hefði verið við upphaflega ákvörðun, svo sem með sambærilegum tilkynningum til fjölmiðla, en ekki lá fyrir hvort það hefði verið gert.