Aron var í byrjunarliði Sirius í dag en liðið lenti undir á 23. mínútu þegar að Oscar Pettersson kom boltanum í netið fyrir Brommapojkarna.
Leikmenn Sirius náðu hins vegar að svara fyrir sig fjórum mínútum síðar þegar að Edi Sylisufaj kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Daniel Stensson.
Það var síðan á 64. mínútu þegar að Tashreeq Matthews tryggði Sirius stigin þrjú með marki eftir stoðsendingu frá Aroni og lokatölur leiksins því 2-1.
Með sigrinum spyrnir Sirius sér upp úr fallsæti og situr liðið nú í 13. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 8 stig eftir tíu leiki. Liðin þrjú fyrir neðan eiga þó öll leik til góða á Sirius.