Innlent

Vaknaði við inn­brots­þjófa inni á heimilinu

Árni Sæberg skrifar
Brotist var inn í heimahús í Breiðholti í morgun.
Brotist var inn í heimahús í Breiðholti í morgun. Vísir/Vilhelm

Töluverður erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á milli klukkan 05 og 17 í dag. Á sjötta tímanum í morgun var til að mynda tilkynnt um innbrot í heimahús í Breiðholti. Tveir innbrotsþjófar flúðu vettvang þegar þeir urðu varir við húsráðanda.

Þetta segir í dagbók lögreglunnar fyrir daginn. Þar segir að 51 mál hafi verið skráð í skráingarkerfi lögreglunnar á dagvaktinni, sem er með hærra móti.

Í umdæmi lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu var tilkynnt um mann liggjandi í vegkanti í hverfi 105 laust eftir klukkan 05 í morgun. Maðurinn reyndist vera „ofurölvi“ ferðamaður. Laganna verðir skutluðu honum á hótelið sem hann dvelur á.

Í Breiðholti var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á níunda tímanum í morgun. Erfiðlega reyndist að ná í manninn og honum var því ekið á bráðamóttöku til skoðunar.

Skemmdarvargar á ferð miðsvæðis

Um klukkan hálf eitt í dag var tilkynnt um eignarspjöll á lyftara og bifreið í miðbæ Reyjavíkur. Ekki er vitað hver var þar að verki.

Þá var aftur tilkynnt um skemmdarverk rúmlega klukkutíma síðar. Þá höfðu tvær bifreiðar verið rispaðar í hverfi 105. Sökudólgurinn þar er einnig óþekktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×