Þetta hefur Morgunblaðið eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra en að óbreyttu eiga launahækkanir æðstu ráðamanna að taka gildi 1. júlí næstkomandi og nema þær allt frá 6 til 6,3 prósentum.
Bjarni segir að á Alþingi sé ágætis samhljómur um að hækkun launa muni taka breytingum með hliðsjón af samningum hjá opinberum starfsmönnum.
Hann segir að erfitt verði að sjá fyrir sér fyrirkomulag sem nokkur sátt geti verið um fyrir æðstu embættismenn ríkisins.
Aðilar úr verkalýðshreyfingunni hafa gagnrýnt fyrirhugaða hækkun harðlega og vilja að laun ráðamanna hækki um krónutölu líkt og samið var um á almennum markaði. Hefur verið bent á að ekkert þak sé á launahækkuninni líkt og samið var um hjá öðrum í haust þegar laun hækkuðu almennt ekki meira en um 66 þúsund krónur.
Launahækkunin nemur 6 til 6,3 prósent samkvæmt fyrirkomulagi sem komið var á 2019 í kjölfar þess að umdeilt kjararáð var lagt niður. Laun forsætisráðherra munu þannig hækka um 156 þúsund krónur, aðrir ráðherra fá um 141 þúsund króna hækkun og seðlabankastjóri um 130 þúsund króna hækkun.