Rúnar er kominn með 37 mörk í fyrstu fjórum leikjunum sem gera 9,3 mörk að meðaltali í leik. Hann hefur aðeins skorað fimm markanna af vítalínunni.
Rúnar skoraði mest þrettán mörk í leik og ellefu mörk í leik tvö. Hann skoraði sex mörk í fyrsta leiknum og sjö mörk í síðasta leik.
Rúnar er þegar kominn í hóp þeirra leikmanna sem hafa skorað flest mörk í einu úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn síðan að úrslitakeppnin var tekin upp árið 1992.
Metið er í eigu Róberts Julians Duranona sem skoraði 44 mörk í úrslitaeinvígi KA á móti Val árið 1996. Duranona lék þá fjóra leiki og var því 11,0 mörk að meðaltali í leik.
Hann skoraði 11 mörk eða meira í þremur af fjórum leikjum sínum en nítján af mörkum hans komu af vítalínunni.
Rúnar er því sjö mörkum frá því að jafna met Duranona og átta mörkum frá því að eiga það einn hér eftir.
Sigurbergur Sveinsson var nálægt því að jafna metið í úrslitaeinvíginu 2010 þegar hann skoraði 43 mörk í fimm leikjum. Sigurbergur skoraði sex mörk í oddaleiknum þar sem Haukarnir tryggðu sér titilinn.
Valdimar Grímsson átti metið áður en Róbert Julian Duranona tók það af honum fyrir 27 árum síðan. Valdimar varð sá fyrsti til að skora yfir fjörutíu mörk í einu úrslitaeinvígi með KA á móti Val í úrslitaeinvíginu árið 1995.
Hér fyrir neðan má sjá þá sem hafa skorað flest mörk í einu úrslitaeinvígi.
Oddaleikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 19.00 í kvöld og verður að sjálfsögðu sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun frá Eyjum hefst klukkan 18.00 og það verður mikið um dýrðir enda verður húsið troðfullt og mikill áhugi á leiknum.
- Flest mörk í einu úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitlinn í handbolta karla:
- 44 - Róbert Julian Duranona, KA 1996
- 43 - Sigurbergur Sveinsson, Haukum 2010
- 42 - Valdimar Grímsson, KA 1995
- 39 - Halldór Jóhann Sigfússon, KA 2002
- 39 - Adam Haukur Baumruk, Haukum 2016
- 38 - Róbert Julian Duranona, KA 1997
- 37 - Rúnar Kárason, ÍBV 2023
- 36 - Mikk Pinnonen, Aftureldingu 2016
- 35 - Arnór Þór Gunnarsson, Val 2010
- 34 - Guðjón Valur Sigurðsson, KA 2001
- 34 - Sigurbergur Sveinsson, Haukum 2014
- 34 - Hákon Daði Styrmisson, Haukum 2016
- 33 - Sigurður Valur Sveinsson, Selfossi 1992
- 33 - Valdimar Grímsson, Val 1993
- 33 - Halldór Jóhann Sigfússon, KA 2001
- 33 - Agnar Smári Jónsson, ÍBV 2014