Erlent

„Fjöl­skyldu­með­limur“ Charles Man­son á rétt á reynslu­lausn

Kjartan Kjartansson skrifar
Leslie Van Houten er 73 ára gömul. Hún var aðeins nítján ára þegar Charles Manson skipaði henni að myrða hjón í Los Angeles.
Leslie Van Houten er 73 ára gömul. Hún var aðeins nítján ára þegar Charles Manson skipaði henni að myrða hjón í Los Angeles. AP/Stan Lim/Los Angeles Daily News

Áfrýjunardómstóll í Kaliforníu í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu í gær að kona sem myrti hjón að fyrirskipan Charles Manson á 7. áratug síðustu aldar ætti rétt á reynslulausn. Konan hefur setið í fangelsi undanfarin fimmtíu ár og hefur ítrekað verið neitað um lausn gegn reynslu.

Leslie Van Houten var yngsti fylgjandi Manson sem stýrði sértrúarsöfnuði, aðallega ungra kvenna. Hann fyrirskipaði fylgjendum sínum að myrða sjö manns, þar á meðal leikkonuna Sharon Tate árið 1969. Tilgangurinn var að kom af stað kynþáttastríði í Bandaríkjunum. Mason lést í fangelsi árið 2017.

Van Houten var dæmd fyrir að stinga verslunareiganda og eiginkonu hans til bana á heimili þeirra í Los Angeles kvöldið áður en Tate var myrt í ágúst árið 1969. Orðin „Dauði yfir svínunum“ og „Healter Skelter“, misrituð vísun í lag Bítlanna, voru rituð með blóði þeirra myrtu á veggi og ísskáp. Van Houten var nítján ára gömul þegar hún framdi morðin.

Upphaflega var Van Houten dæmd til dauða fyrir morðin. Dómurinn var mildaður í lífstíðarfangelsi eftir að hæstiréttur Kaliforníu komst að þeirri niðurstöðu að dauðarefsingar stæðust ekki stjórnarskrá ríkisins árið 1972.

Skilorðsnefnd ríkisins hefur fimm sinnum mælt með því að Van Houten, sem nú er 73 ára gömul, fái reynslulausn frá 2016. Núverandi og fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu hafa hafnað því í hvert skipti. Áfrýjunardómstóll sneri nýjustu höfnun Gavins Newsom, ríkisstjóra, við í gær. Féllst dómstóllinn á rök skilorðsnefndarinnar um að Van Houten hafi verið endurhæfð og ógni samfélaginu ekki lengur. Newsom getur enn skotið málinu til hæstaréttar ríkisins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×