Í tilkynningu frá VÍS segir að Rúnar Örn muni bera ábyrgð á verðlagningu, viðskiptakjörum og afkomu af tryggingum félagsins.
„Hann ber einnig ábyrgð á áhættumati fyrirtækja og endurnýjun á tryggingum hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Rúnar hóf störf hjá VÍS árið 2019 sem sérfræðingur í vörustjórnun, stofnstýringu og áhættumati. Áður starfaði hann hjá Mannviti við verkefnastjórn þar sem megináherslan var á kostnaðar-og verkáætlanir sem og tölulegar greiningar. Rúnar er með meistaragráðu (M.Sc.) í byggingarverkfræði frá Danska tækniháskólanum (DTU) og B.Sc.-gráðu í umhverfis-og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Það er gaman að geta þess að Rúnar er einnig afreksmaður í íþróttum, þá sérstaklega í þríþraut og hjólreiðum. Hann hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari í hjólreiðum og keppti 2019 og 2021 fyrir Ísland á heimsmeistaramótinu í hjólreiðum.
Hafsteinn Esekíel Hafsteinsson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður einstaklingsviðskipta hjá VÍS. Hann ber ábyrgð á því að efla og samræma sókn á einstaklingsmarkaði um allt land sem og að tryggja framúrskarandi þjónustu í einstaklingsviðskiptum. Áður starfaði hann sem forstöðumaður einstaklingsráðgjafar hjá Sjóvá. Hafsteinn hefur einnig starfað sem flugliði hjá Icelandair og sem rekstrarstjóri hjá Bestseller á Íslandi. Einnig er gaman að geta þess að Hafsteinn er liðtækur á dansgólfinu og hefur unnið til verðlauna í samkvæmisdönsum. Hann hefur tekið þátt sem söngvari og dansari í leiksýningum og má þar á meðal nefna söngleikinn Mary Poppins í uppsetningu Borgarleikhússins hér um árið. Hann stundaði nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.