Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna (FTC) segir að Amazon Ring-dyrabjöllumyndavélin hafi gefið starfsmönnum Ring ótakmarkaðan aðgang að viðkvæmum myndbandsupplýsingum um viðskiptavini. Starfsmenn og verktakar hafi getað skoðað, sótt og flutt slík gögn.
FTC segir að það hafi verið vegna kæruleysislegs viðhorfs fyrirtækisins til persónuverndar og öryggismála og hættulega umfagsmikil aðgangs starfsmanna að gögnunum. Amazon keypti Ring árið 2018 og lofaði þá bót og betrun.
Einn starfsmaður Ring skoðaði myndbönd af að minnsta kosti 81 kvenkyns viðskiptavini og starfsmanni Ring sem komu frá vörum fyrirtækisins. Njósnirnar stóðu yfir um nokkurra mánaða skeið án þess að fyrirtækið tæki eftir þeim. Það'var ekki fyrr en samstarfsmaður mannsins tók eftir því sem hann aðhafðist og tilkynnti hann sem starfsmanninum var sagt upp störfum, að því er segir í frétt Reuters.
Í öðru tilfelli lét starfsmaður Ring fyrrverandi eiginmann viðskiptavins fá upplýsingar um upptökur úr myndavélum án leyfis. Þá reyndist annar starfsmaður hafa gefið fólki Ring-tæki og svo horft á myndbönd af því án vitundar þess.
Ring breytti vinnubrögðum sínum árið 2019 þannig að flestir starfsmenn og verktakar gátu þá aðeins skoðað myndbönd viðskiptavina með leyfi þeirra. Amazon féllst á að greiða 5,8 milljónir dollara, jafnvirði um 814 milljóna íslenskra króna, í sátt vegna persónuverndarlagabrotanna.
Sektirnar dropi í hafið
Þá greiðir Amazon 25 milljónir dollara, jafnvirði rúmra 3,5 milljarða króna, vegna ásakana um að það hafi brotið gegn friðhelgi barna þegar það eyddi ekki upptökum úr Alexu, raddstýrðum hátalara, þrátt fyrir óskir foreldra um það. Fyrirtækið geymdi upptökurnar líka lengur en nauðsyn krafði.
Amazon sagðist í yfirlýsingu ósammála fullyrðingum FTC um Alexu og Ring og hafna því að hafa brotið lög. Með sáttunum væru málunum lokið hvað fyrirtækið varðaði.
Alvaro Bedoya, framkvæmdastjóri FTC, sagði sáttirnar aftur á móti senda tæknirisunum skilaboð um þörf þeirra til að sanka að sér upplýsingum gæfi þeim ekki leyfi til þess að brjóta lög.
Ólíklegt er þó að stjórnendur Amazon missi svefn yfir sektargreiðslunum. Hagnaður Amazon á fyrsta fjórðungi ársins nam um 3,2 milljörðum dollara, meira en 420 milljörðum íslenskra króna. Upphæð sektanna nemur um einu prósenti af hagnaðinum.