Þetta herma heimildir Vísis en svo virðist sem að hollenska félagið Ajax vilji ekki hleypa Kristian Nökkva Hlynssyni á mótið, og að danska félagið FC Kaupmannahöfn setji Orra Steini Óskarssyni sömuleiðis stólinn fyrir dyrnar.
Öfugt við landsliðsverkefni A-landsliða og U21-landsliða þá er félögum ekki skylt að láta leikmenn sína af hendi á Evrópumót U19-landsliða. Það er því í þeirra höndum að gefa leyfi fyrir því að KSÍ fái leikmenn á mótið og í langflestum tilfellum mun það ganga eftir.
Enn er þó tími til stefnu fyrir KSÍ til að sannfæra forráðamenn Ajax og FCK um að hleypa Kristian og Orra á mótið, en íslenski hópurinn verður kynntur í næstu viku.
EM fer fram á Möltu 3.-16. júlí og er Ísland eitt af aðeins átta liðum sem spila á lokamótinu, eftir að hafa meðal annars slegið út ríkjandi meistara Englands í milliriðlakeppninni.
Ísland vann England 1-0, Ungverjaland 2-0 og gerði 2-2 jafntefli við Tyrkland í milliriðlakeppninni, og skoraði Orri þrjú marka Íslands og Kristian eitt.
Íslensku félögin fá að færa leiki
Ljóst er að EM U19-landsliða karla og kvenna, sem bæði fara fram í júlí, hafa umtalsverð áhrif á leikjadagskrána í Bestu deildunum.
Ekki er vitað til þess að nokkurt íslenskt félag ætli að banna leikmanni að fara á EM og virðist samstaða um að gera íslensku landsliðunum kleyft að ná sem bestum árangri.
Hins vegar mun þátttaka á mótunum hafa mismikil áhrif á íslensku liðin og til að mynda gætu 4-6 leikmenn úr karlaliði Stjörnunnar verið á leið á EM.
Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, segir að orðið verði við óskum félaga um að færa leiki vegna EM, og að nóg sé að annað liðið í hverjum leik fyrir sig óski eftir því.
Tveggja vikna ferðalög
Áætlað er að íslenski hópurinn sem fer á EM U19 karla fari af landi brott 30. júní, að lokinni 13. umferð Bestu deildarinnar, og spilar liðið við Spán 4. júlí, Noreg 7. júlí og Grikkland 10. júlí, og svo mögulega í undanúrslitum 13. júlí og úrslitum 16. júlí.
Lengra er í að EM U19 kvenna fari fram en það er haldið í Belgíu. Ísland mætir Spáni í fyrsta leik 18. júlí, Tékklandi 21. júlí og Frakklandi 24. júlí, og spilar svo mögulega í undanúrslitum 27. júlí og úrslitum 30. júlí.