Erlent

Öldunga­deildin sam­þykkti frum­varpið um hækkun skulda­þaksins

Atli Ísleifsson skrifar
Chuck Schumer er leiðtogi demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hann var ánægður að atkvæðagreiðslu lokinni.
Chuck Schumer er leiðtogi demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hann var ánægður að atkvæðagreiðslu lokinni. AP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti frumvarp um hækkun skuldaþaks bandaríska ríkisins í nótt. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagst nú munu staðfesta frumvarpið þannig að koma megi í veg fyrir greiðslufall bandaríska ríkisins.

63 þingmenn öldungadeildarinnar greiddu atkvæði með frumvarpinu, en 36 gegn. Alls þurftu sextíu þingmenn að greiða atkvæði með frumvarpinu til að það yrði samþykkt, en demókratar eru með nauman meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. 

44 þingmenn demókrata greiddu atkvæði með frumvarpinu og sautján repúblikanar, en í hópi þingmanna demókrata sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu voru Bernie Sanders, John Fetterman og Elizabeth Warren.

Breytingartillögur felldar

Í atkvæðagreiðslunni í nótt lögðu hinir ýmsu öldungadeildarþingmenn fyrst fram ellefu breytingartillögur en þær voru allar felldar í atkvæðagreiðslum. Hefði ekki nema ein þeirra verið samþykkt hefði þurft að vísa frumvarpinu aftur til fulltrúadeildarinnar, sem hefði leitt til þess að mjög skammur tími hefði verið til að forða bandaríska ríkinu frá greiðslufalli sem hefði að óbreyttu gerst á mánudaginn.

Myndi það genga eftir myndi það hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir bæði Bandaríkin fjölmörg önnur ríki. Þannig myndu lánamöguleikar bandaríska ríkisins takmarkast mjög, auk þess að málið hefði mikil áhrif á bæði verðlag og vaxtakjör í öðrum ríkjum.

Frumvarpið sem samþykkt var í nótt, og sem Biden forseti mun nú staðfesta, felur í sér að skuldaþaki bandaríska ríkisins – þær takmarkanir sem þingið setur á heildarlán sem bandaríska ríkið getur tekið – er aflétt fram að ársbyrjun 2025.

31,5 billjónir dala

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti frumvarpið aðfararnótt gærdagsins þar sem 314 þingmenn greiddu atkvæði með en 117 gegn. Repúblikanar eru með meirihluta í fulltrúadeildinni og tókst að ná frumvarpinu í gegn eftir viðræður demókratans Bidens forseta og repúblikanans Kevin McCarthy, forseta fulltrúadeildarinnar.

Skuldir bandaríska ríkisins nema nú um 31,5 billjónum bandaríkjadala.


Tengdar fréttir

Sam­þykktu frum­varp um hækkun skulda­þaksins

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti með miklum meirihluta að hækka skuldaþak bandaríska ríkisins í nótt. Er talið að með þessi verði hægt að komast hjá greiðslufalli bandaríska ríkisins.

McCarthy stendur frammi fyrir uppreisn

Kevin McCarthy, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, stendur frammi fyrir mótmælum frá hægri sinnuðustu þingmönnum í þingflokki hans vegna samkomulags sem hann hefur gert við Joe Biden, forseta, um skuldaþakið svokallaða. Þingmönnunum þykir hann ekki hafa gengið nógu hart fram gegn Biden og náð fram þeim niðurskurði sem þeir vilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×