Maðurinn, sem heitir Daniel Norbert Szymanski, játaði skýlaust fyrir dómi að hafa haft í fórum sínum tæp þrjú kíló af amfetamíni og 692 stykki og 225 ml af vefaukandi steralyfjum.
Þá játaði hann einnig að hafa brotist inn í íbúð laugardaginn 4. febrúar og stolið Rolex armbandsúri að verðmæti tæplega 1,2 milljónir króna, Breitling armbandsúri og töskum og belti frá Louis Vuitton.
Daniel var handtekinn föstudaginn 10. febrúar þegar lögreglan lagði hald á þýfið ásamt amfetamín- og sterabirgðum við húsleit í bílskúrnum hans.
Í dómnum kemur fram að Daniel hafi ekki áður hlotið refsingu hér á landi og það hafi haft áhrif á þyngd dómsins, auk þess sem hann hafi játað allri sök skýlaust.
Auk óskilorðsbundinnar fangelsisvistar þarf Daniel að greiða allan sakarkostnað. Einnig er þess krafist að fíkniefnin auk hálfrar milljónar króna verði gerð upptæk.