Fótbolti

„Fáir í kringum mig sem höfðu trú á þessu“

Stefán Árni Pálsson og Aron Guðmundsson skrifa
Freyr Alexanderson hefur gert magnaða hluti hjá Lyngby
Freyr Alexanderson hefur gert magnaða hluti hjá Lyngby Vísir/Getty

Freyr Alexanders­son þjálfari danska úr­vals­deildar­fé­lagsins Lyng­by, sem í gær vann krafta­verk sem tekið var eftir í Dan­mörku er liðið hélt sæti sínu í deildinni, segir af­rek gær­dagsins vera það stærsta á sínum þjálfara­ferli. Hann hafði á­vallt trú á því að liðinu tækist það sem margir töldu ó­mögu­legt.

„Mér líður rosa­lega vel í dag, nú er þetta búið að renna upp fyrir mér,“ segir Freyr í við­tali við Stöð 2. „Ég var rosa­lega ruglaður í gær og átti erfitt með að með­taka þetta á vellinum eftir leik. Það rann eigin­lega ekki upp fyrir mér fyrr en seint í nótt þegar ég var kominn heim og í morgun sem þetta rann al­menni­lega upp fyrir mér. Mér líður alveg ó­trú­lega vel.“

Lyng­by hefur þurft að kynnast botn­sætinu í dönsku úr­vals­deildinni allt of vel og þegar að staðan var sem verst var liðið sex­tán stigum frá öruggu sæti í deildinni.

Höfðu fáir trú á þessu

„Þetta var seint í vetur en ein­hverra hluta vegna hafði ég alltaf trú á þessu en þurfti að sama skapi að leggja á mig mikla vinnu bara til að halda trúnni.“

„Ég hélt mér við stað­reyndir og hafði tæra sýn á stefnu okkar, hvernig við vildum gera þetta en það voru fáir í kringum mig sem höfðu trú á þessu á svörtustu tímunum. Nú hafa þeir ein­staklingar, til að mynda stjórnar­menn mínir, opnað sig um það.“

Freyr tolleraður af leikmönnum Lyngby eftir leik gærdagsinsVísir/Getty

En hvernig út­skýrirðu það að þið hafið náð að bjarga ykkur frá falli að lokum?

„Ég á svo­lítið erfitt með það að vera ein­hver snillingur í þessu og benda ná­kvæm­lega á það hvað það var. En ef ég tala fyrst um stað­reyndirnar þá skoðaði ég alla undir­liggjandi þætti leiksins eftir fyrri hluta tíma­bilsins hjá þessum liðum sem enduðu síðan á því að falla.

Hjá þessum liðum, sér­stak­lega Hor­sens, stefndi ekkert í þeirra leik í það að þeir myndu ná í jafn­mörg stig á seinni hluta tíma­bilsins líkt og þau gerðu fyrir jól. Á sama tíma spiluðum við miklu betur en við fengum stig fyrir.

Ég hafði því á­kveðnar stað­reyndir á bak við mig að ef við myndum halda á­fram að gera hitt og þetta sem var gott í okkar leik þá á ein­hverjum tíma­punkti hljóta þeir að hætta að verða heppnir og við að verða eitt­hvað heppnir. Þetta jafnast alltaf út á endanum.“

Stuðningsmenn Lyngby með íslenska fánann í stúkunni.Vísir/Getty

Vildi losa um neikvæða orku

Þá losaði Freyr sig við leik­menn sem honum fannst ekki hafa trú á verk­efninu.

„Leik­menn sem voru farnir að hugsa um sjálfan sig. Ekki næstum því allir af þeim leik­mönnum sem fóru voru þó með þannig þanka­gang. Sumir voru hrein­lega bara seldir af því að við fengum góðan pening fyrir þá.

En það voru jú nokkrir leik­menn sem ég lét hrein­lega fara til þess að losa um nei­kvæða orku og fá góða orku inn í hópinn í staðinn.“

Og það er alveg ljóst í huga Freys hvar þetta af­rek stendur á hans þjálfara­ferli til þessa.

„Þetta er mitt stærsta af­rek sem þjálfari, á því liggur enginn vafi. Þetta er mjög stórt og ég er mjög stoltur af mér sjálfum, starfs­liðinu mínu sem og leik­mönnum. Þetta hefur verið ævin­týri líkast.“

Alfreð Finnbogason hefur verið á mála hjá Lyngby á yfirstandandi tímabili

Íslendingarnir alvöru karakterar

Þrír ís­lenskir leik­menn eru á mála hjá Lyng­by. Þeir Sæ­var Atli Magnús­son, Al­freð Finn­boga­son og Kol­beinn Finns­son.

„Allir þessir þrír leik­menn eru með á­kveðið hugar­far sem ég horfði mjög sterkt í þegar að ég tók þá. Hugar­far þeirra hefur smitast út í leik­manna­hópinn. Þeir eru leið­togar á sinn eigin hátt, eru mjög vinnu­samir og það síðan fyrir utan hæfi­leikana sem þeir búa yfir inn á vellinum. Þetta eru al­vöru karakterar og það hefur klár­lega smitað út frá sér í leik­manna­hópinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×