Skoðun

Nýtur náttúran verndar í Reykja­vík?

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar

Áform meirihlutans í Reykjavík um Nýja Skerjafjörð hafa verið til umræðu að undanförnu en það er stefna vinstri meirihlutans í borginni að eyða óraskaðri fjöru í Skerjafirði þvert á varnaðarorð ýmissa aðila s.s. Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar. Ljóst er að hér er í uppsiglingu eitt stærsta umhverfisslys okkar tíma á höfuðborgarsvæðinu. Líffræðileg fjölbreytni, leirur og fjörulíf verða fyrir óafturkræfum skaða og ljóst að náttúran er ekki látin njóta vafans.

Græn svæði víkja í Reykjavík

Helsta kosningamál Sjálfstæðismanna í sveitarstjórnarkosningum fyrir hartnær 50 árum var Græna byltingin þar sem lofað var grænum svæðum innan borgarinnar og blárri byltingu til að vernda lax og silungaveiði. Sem betur fer hefur borgin haldið í flest þessi svæði en á síðari árum hefur orðið sú stefnubreyting hjá borgaryfirvöldum að grænu svæðin eiga að víkja fyrir byggð.

Þar má nefna Elliðaárdalinn, Laugardalinn, áætlanir í Grafarvogi og áform um stórfellt byggingarmagn og landfyllingu í Skerjafirði.

Viljum við höfuðstöðvar Landssímans og bíó í Laugardalinn?

Ég veit að þetta hljómar fáránlega. En það var hér vinstri meirihluti í borginni sem ætlaði í alvöru að gera nákvæmlega það. Nánar tiltekið árið 1999. Eftir mikil mótmæli sáu borgaryfirvöld að sér og hættu við að byggja 37.000 fm. byggingar í Laugardal og fórna þar með einu mikilvægasta græna svæðinu í borginni. Það var vel gert að skipta um skoðun þá. Hvað gerir vinstri meirihlutinn núna?

Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×