Gísli Þorgeir var frábær í leik dagsins sem Magdeburg vann 35-30. Íslenski miðjumaðurinn skoraði tvö mörk en gaf hvorki meira né minna en sjö stoðsendingar í sigri dagsins. Aðeins einn leikmaður Magdeburg kom að fleiri mörkum en það var Kai Smits, sá skoraði 10 mörk og gaf eina stoðsendingu.
Sigur Magdeburg dugði ekki til sigurs í deildinni því Kiel endaði með tveimur stigum meira og er því Þýskalandsmeistari. Gísli Þorgeir endaði níundi markahæsti leikmaður deildarinnar með 152 mörk en hann gaf einnig 107 stoðsendingar.
- Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer þegar liðið tapaði með eins marks mun fyrir Erlangen á heimavelli, lokatölur 29-30. Ólafur Stefánsson er í þjálfarateymi Erlangen.
- Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk í fimm marka tapi Melsungen gegn HSV á útivelli, lokatölur 33-28.
- Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark í þriggja marka sigri Flensburg á Rhein-Neckar Löwen, lokatölur 34-31. Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen.
- Íslendingalið Gummersbach gerði jafntefli við Minden á útivelli, 38-38. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk í liði Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson gerði tvö. Guðjón Valur Sigurðsson er sem fyrr þjálfari liðsins en hann var á dögunum valinn þjálfari ársins í Þýskalandi. Sveinn Jóhannesson skoraði tvö mörk í liði Minden sem er fallið.
Markahæstur allra í deildinni var hinn danski, Casper Mortensen - leikmaður Hamburg - með 234 mörk. Hann leikur með Hamburg.
Kiel stóð á endanum uppi sem sigurvegari með 59 stig en Magdeburg kom þar á eftir með 57 stig. Stöðuna í deildinni má finna hér.