Erlent

Silvio Berlusconi er látinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Berlusconi í febrúar síðastliðnum.
Berlusconi í febrúar síðastliðnum. Getty/Anadolu Agency/Piero Cruciatti

Silvio Berlusconi, umdeildur fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, er látinn. Hann var 86 ára. Berlusconi umbylti ítölskum stjórnmálum og fjölmiðlum en forsætisráðherratíð hans endaði í skugga efnahagsóstjórnar og kynlífshneykslismála.

Samkvæmt miðlum á Ítalíu lést Berlusconi á San Raffaele-sjúkrahúsinu í Mílanó. Hann var greindur með hvítblæði fyrir nokkrum árum og hafði dvalið á sjúkrahúsinu í sex vikur vegna lungnasýkingar.

Berlusconi fæddist árið 1936 og hóf feril sinn í fasteignaviðskiptum. Hann stofnaði síðar Mediaset, stærstu fjölmiðlasamsteypu Ítalíu og átti knattspyrnufélagið AC Milan 1986 til 2017.

Fjölmiðlamógúllinn stofnaði stjórnmálaflokkinn Forza Italia árið 1993 og komst fyrst til valda árið 1994. Hann fór fyrir fjórum ríkisstjórnum til 2011. Flokkur hans komst aftur til valda í fyrra, í samsteypustjórn undir forystu Giorgiu Meloni.

Þrátt fyrir að Berlusconi hafi verið ákærður fyrir glæpi 35 sinnum í gegnum tíðina var hann aðeins sakfelldur fyrir skattsvik árið 2012 og þurfti þá að sinna samfélagsþjónustu. Þegar Berlusconi hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra árið 2011 var hann sakaður um að hafa greitt unglingsstúlku fyrir kynlíf og misnota völd sín til þess að hylma yfir það.

Hann kvæntist tvisvar og átti fimm börn.

Berlusconi greindist með Covid-19 í septeber 2020 og þjáðist af langavarandi einkennum. Sagði hann lífsreynsluna þá verstu sem hann hefði upplifað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×