Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti á föstudaginn að ákveðið hefði verið að leggja niður starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu frá 1. ágúst næstkomandi. Þá hefði sendiherra Rússlands hér á landi verið tjáð að gert sé ráð fyrir að Rússland minnki fyrirsvar sitt þannig að sendiherra stýri ekki lengur sendiráði Rússlands í Reykjavík. Sömuleiðis hefði Rússlandi verið gert að lágmarka starfsemi sendiráðsins á Íslandi til samræmis við þessa ákvörðun.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum Rússlands og vesturlanda frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda nú er sögð ekki fela í sér slit á stjórnmálasambandi ríkjanna og að „um leið og aðstæður leyfa“ verði lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný.
Gætt að réttindum og hagsmunum starfsfólksins
Í svari ráðuneytisins segir að við uppsagnirnar á staðarráðnum verði gætt að réttindum fólksins og hagsmunum í hvítvetna.
Sjö manns hafa starfað við sendiráð Íslands í Moskvu – tveir útsendir starfsmenn ráðuneytisins, Árni Þór Sigurðsson sendiherra þar með talinn, og svo fimm staðarráðnir. Greint hefur verið frá því að Árni Þór muni taka við sem sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn.
Verður „óhjákvæmilega svarað“
Í svari ráðuneytisins við spurningu um hvort íslensk stjórnvöld hafi fengið einhver viðbrögð frá rússneskum stjórnvöldum vegna tilkynningarinnar fyrir helgi segir að svo sé ekki, umfram það sem þegar hafi komið fram í fjölmiðlum.
Um helgina kom fram í tilkynningu frá rússneska utanríkisráðuneytinu að „and-rússneskum ákvörðunum íslenskra ráðamanna“ verði óhjákvæmilega svarað. Ákvörðunin muni hafa áhrif á allt samstarf Rússlands og Íslands. „Við munum taka tillit til þessarar óvinsamlegu ákvörðunar þegar við byggjum upp tengsl okkar við Ísland í framtíðinni.“
Sendiráð Íslands í Moskvu var opnað 1944. Að neðan má sjá stiklu úr þætti Sendiráðum Íslands, þætti Sindra Sindrasonar frá árinu 2016, þar sem hann heimsótti sendiráð Íslands í Moskvu.