Fótbolti

Haaland hættur að fagna og lentur í Noregi

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland átti algjört draumatímabil á sínu fyrsta ári í Manchester City og hefur haft góða ástæðu til að fagna vel síðustu daga.
Erling Haaland átti algjört draumatímabil á sínu fyrsta ári í Manchester City og hefur haft góða ástæðu til að fagna vel síðustu daga. Getty/Tom Flathers

Erling Haaland er kominn heim til Noregs eftir stíf fagnaðarhöld Manchester City í kjölfar þess að liðið tryggði sér þrennuna með sigri á Inter í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardag.

Haaland kom til Noregs í einkaflugvél nú síðdegis en hann er líkt og fleiri leikmenn Manchester City á leið í landsleiki á næstunni, áður en kærkomið sumarfrí tekur við.

Haaland, sem varð markakóngur Meistaradeildarinnar og setti markamet í ensku úrvalsdeildinni, var myndaður við komuna til Oslóar í dag en hann ferðaðist ásamt kærustu sinni, Isabel Haugseng Johansen. Þau fögnuðu Evrópumeistaratitlinum saman í Istanbúl á laugardaginn.

Haaland og félagar í norska landsliðinu eiga fyrir höndum afar mikilvægan leik við Skotland á laugardaginn, í undankeppni EM, og svo gegn Kýpur þremur dögum síðar. 

Þeir fengu aðeins eitt stig úr fyrstu tveimur leikjum sínum, gegn Spáni og Georgíu, en Skotland byrjaði á sigrum gegn Kýpur og Spáni.

Á meðal annarra leikmanna City sem eru á leið í landsleiki eru Portúgalarnir Rúben Dias og Bernardo Silva sem væntanlegir eru á Laugardalsvöll eftir viku, en fyrst tekur Portúgal á móti Bosníu á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×