Viðskipti innlent

Henning nýr deildar­for­seti tölvunar­fræði­deildar HR

Atli Ísleifsson skrifar
Henning Arnór Úlfarsson.
Henning Arnór Úlfarsson. HR

Dr. Henning Arnór Úlfarsson hefur verið skipaður deildarforseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík.

Í tilkynningu segir að Henning hafi lokið PhD-gráðu í stærðfræði frá Brown University árið 2009 og BSc-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 2004. 

„Hann hóf störf við HR árið 2008 sem nýdoktor og varð seinna meir lektor og dósent. Rannsóknir hans beinast að beitingu aðferða tölvunarfræði á vandamál í strjálli stærðfræði, sérstaklega fléttufræði umraðanamynstra. Hann hefur birt fjölda greina í alþjóðlegum tímaritum og haldið erindi á ráðstefnum og vinnustofum hérlendis og erlendis.

Við Háskólann í Reykjavík hefur Henning kennt ýmsa stærðfræði- og tölvunarfræðiáfanga gegnum árin ásamt því að leiðbeina grunn- og framhaldsnemum auk nýdoktora. Nemendur hans hafa farið í störf í atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Hann hefur tekið virkan þátt í þróun tölvunarfræðináms við Háskólann í Reykjavík. Henning var formaður Íslenska stærðfræðafélagsins 2011 til 2013 og ritari Vísindafélags Íslands 2016 til 2017. Hann hefur skipulagt nokkrar ráðstefnur og vinnustofur á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×