Búast má við erfiðum tíma framundan segir seðlabankastjóri.
Kannski erfið mánaðarmót nú þegar?
Allt þetta hefur áhrif á það hvernig okkur líður og gengur. Því rannsóknir sýna að það að hafa fjárhagsáhyggjur, hefur bein áhrif á það hvernig okkur gengur í vinnunni.
Könnun sem gerð var í Bretlandi sýnir að 80% fólks á vinnumarkaði í Bretlandi telur fjárhagsáhyggjur hafa bein áhrif á heilsu þeirra og neikvæð áhrif á afköstin þeirra í vinnunni.
Ef litið er til þess hóps sem rekur heimili og er með börn, hækkar þetta hlutfall í 88%.
Ekki er ólíklegt að sambærilegar niðurstöður megi yfirfærast á fleiri samfélög.
Að ræða fjárhagsáhyggjur sínar og líðan vegna hennar er hins vegar eitthvað sem fæstum finnst auðvelt. Þannig segja niðurstöður að 66% starfsfólks finnist óþægilegt að ræða áhyggjur sínar eða greiðsluvanda við vinnuveitanda.
Könnunin var gerð af breska rannsóknarfyrirtækinu YouGov í fyrra og þátttakendur voru 1000 manns.
Í viðtali Atvinnulífsins við Hauk Sigurðsson sálfræðing á tímum heimsfaraldurs, segir Haukur áhrif þess að hafa peningaáhyggjur geta verið miklar og alvarlegar.
Með aukinni fjárhagslegri streitu, aukast líkur á samskiptavandamálum, bæði á vinnustað en einnig í persónulega lífinu.
Álagið getur verið mikið á hjónabandið.
Auknar líkur eru á heimilisofbeldi og skilnuðum sömuleiðis.“
Þá segir Haukur fjárhagsáhyggjur geta haft áhrif á sjálfsmatið okkar sem minnkar, myndað kvíða, aukið á svartsýni, þunglyndis og reiði.
Heilsubrestir eins og höfuðverkur, magaverkur og svefnleysi geta einnig verið fylgifiskar þess að vera í greiðsluvanda eða með áhyggjur af peningum.
Viðtalið við Hauk má sjá hér.