Innlent

Kirkju­tröppurnar loka og ó­víst með opnun

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Framkvæmdir ættu að hefjast á næstu dögum.
Framkvæmdir ættu að hefjast á næstu dögum. Vísir/Vilhelm

Vegna framkvæmda verður á næstu dögum lokað fyrir umferð um tröppurnar að Akureyrarkirkju og ekki er vitað með vissu hvenær opnað verður fyrir umferð um nýjar kirkjutröppur. 

Í tilkynningu á Akureyri.net kemur fram að ef allt gengur eftir hefjist framkvæmdirnar á næstu dögum. Um er að ræða umfangsmiklar framkvæmdir en meðal annars verða tröppurnar brotnar upp, nýjar tröppur steyptar, snjóbræðslukerfi komið fyrir og handrið með lýsingu sett upp. Áætluð verklok á tröppunum eru þann 15. október.

Þá hefur ekki verið ákveðið hvort opnað verði fyrir umferð um tröppurnar á nýjan leik við verklok í október eða næsta vor.

Kirkjutröppurnar eru vinsæll viðkomustaður fyrir ferðamenn en á meðan framkvæmdum stendur verða gestir að sætta sig við aðrar gönguleiðir að kirkjunni og Lystigarðinum.

Alls sjö verktakafyrirtæki munu koma að verkinu en í tilkynningu kemur fram að til þess að hægt sé að hefjast handa þurfi samningur við fyrirtækið Lækjarsel ehf., sem mun sjá um byggingarstjórnun og uppsteypu í verkinu, að vera undirritaður. Tafir hafi orðið á undirritun verksamnings vegna verkfalls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×