Erlent

Segja að 150 börnum hafi verið rænt og þau flutt til Rúss­lands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áætlað er að nær 20 þúsund börn hafi verið tekin frá Úkraínu og flutt til Rússlands.
Áætlað er að nær 20 þúsund börn hafi verið tekin frá Úkraínu og flutt til Rússlands. epa/Sergey Dolzhenko

Yfirvöld í Úkraínu segja að 150 börnum hafi verið rænt í Starobilsk í Luhansk 8. júní síðastliðinn og flutt á tvær stofnanir í Prikuban í Karachay-Cherkess í Rússlandi.

Luhansk er eins og stendur undir stjórn Rússa.

Samkvæmt Andspyrnumiðstöð Úkraínu hafa 19.393 börn nú verið flutt með ólögmætum hætti frá hernumdum svæðum Úkraínu til Rússlands.

Eins og áður hefur komið fram hefur Alþjóðaglæpadómstóllinn gefið út handtökuskipun á hendur Vladimir Pútín Rússlandsforseta fyrir skipulagningu brottflutnings barnanna.

Andspyrnumiðstöðin segir alls um 750 börn frá Luhansk verða flutt til Karachay-Cherkess í þessum mánuði. Þá segir hún „læknisskoðanir“ standa yfir á börnum á hernumdum svæðum Úkraínu en í frétt Guardian um málið er þetta ekki útskýrt nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×