Haraldur, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, og Margrét Rut listakona festu kaup á landi á Kjalarnesi árið 2021, eftir að Haraldur seldi Ueno til samfélagsmiðilsins Twitter.
Þar ætluðu þau að reisa listamannasetur, tónlistarstúdíó og gallerý. „Við vorum svo spennt að byggja þennan stað upp fyrir listamenn. Því miður gátum við ekki fengið tilskilin leyfi svo ég þarf því miður að tilkynna að við höfum sett áformin á ís um ótilgreindan tíma,“ segir Haraldur á Twitter.
My wife and I were planning to build an artist residency and more on this lovely piece of land. We were so excited to build this place for artists.
— Halli (@iamharaldur) June 16, 2023
Unfortunately we were not able to get the required permits so I'm sorry to say these plans have been put on hold indefinitely. https://t.co/LZLKNw8mxF
Átti að vera gleðilegt en endaði sem orkusuga
Haraldur segir að þau hjónin hafi varið mikilli orku, tíma og peningum í að þróa hugmyndina, hanna byggingar og vinna með lögmönnum og stjórnvöldum við öflun leyfa, en ekkert virtist virka.
„Þetta átti að vera gleðilegt verkefni en eftir tvö ár hefur þetta bara kostað okkur orku,“ segir hann.
Þá segir hann að erfitt geti verið að ná nýjum hugmyndum í gegn og að verkefnið á Kjalarnesi hafi átt að vera gjöf til samfélagsins. Því hafði hann vonast til þess að stjórnvöld greiddu veg þess.
„Ég kenni ekki neinum um. Ég held að allir hlutaðeigandi hafi gert það sem þeim þótti skynsamlegast. En ég er leiður yfir því að þurfa að gefa þetta upp á bátinn,“ segir Haraldur.