Á blaðamannafundi landsliðsins í dag var Åge Hareide spurður út í Hamsik og Skrniar og hvort hann vildi að þeir myndu spila vegna skorts á leikæfingu.
„Ég myndi ekki orða það þannig því þá ertu að horfa niður á leikmennina. Ég er viss um að þeir séu klárir að spila fyrst þeir voru valdir. Þetta eru góðir leikmenn en hvaða leikmenn Slóvakía notar skiptir mig ekki máli,“ sagði Hareide.
„Hamsik er með flott hár og það gæti trekkt að. Við þurfum að sjá um alla leikmennina í slóvakíska liðinu og þeir eru góðir. Hamsik var einn þeirra besti leikmaður í mörg ár og Skrniar er góður varnarmaður,“ bætti Hareide við.
Hamsik var hættur í slóvakíska landsliðinu en sneri aftur í það fyrir leikina sem framundan eru. Hann var síðast á mála hjá Trabzonspor í Tyrklandi en flestir tengja hann eflaust við Napoli. Hamsik lék með ítalska liðinu í tólf ár (2007-19) og er leikja- og markahæstur í sögu þess.
Skrniar hefur leikið með Inter undanfarin ár en er búinn að semja við Paris Saint-Germain og gengur í raðir Frakklandsmeistaranna í sumar.
Leikur Íslands og Slóvakíu hefst klukkan 18:45 annað kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.