Erlent

Margrét Þór­hildur hætt að reykja

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá drottninguna með sígarettu árið 1999.
Hér má sjá drottninguna með sígarettu árið 1999. EPA/Joergen Jessen

Margrét Þórhildur Danadrottning er hætt að reykja. Það mega heita nokkuð stór tíðindi en drottningin hefur löngum verið mikil reykingamanneskja, eða frá því hún var 17 ára gömul.

Greint er frá þessu á vef BT og haft eftir Lene Balleby, talskonu dönsku krúnunnar, að drottningin hafi ekki reykt síðan í febrúar, í aðdraganda þess að hún gekkst undir aðgerð á baki. 

Drottningin hefur reykt frá því hún var 17 ára gömul, en samkvæmt BT hefur hún haldið sig við filterslausar Karelia sígarettur síðustu fimm áratugina. 

Reykti í Reykjavík

Margrét Þórhildur er, eða var, með þekktari reykingamanneskjum heims. Þegar hún kom í heimsókn til Íslands árið 2013 í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar handritasafnara var henni boðinn öskubakki, þar sem hún skoðaði menningarhúsið Hörpu. 

Það var þáverandi forstjóri Hörpu,  Halldór Guðmundsson, sem bauð henni bakkann, ef ske kynni að hún vildi fá sér að reykja eftir formlega dagskrá. Drottningin lét ekki segja sér það tvisvar og fékk sér smók.

Í tilefni af þessari sömu heimsókn árið 2013 fór drottningin í kvöldverðarboð til þáverandi forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar. Af því tilefni teiknaði Ingþór Ingólfsson, grafískur hönnuður, meðfylgjandi mynd sem hann teiknaði þegar hann frétti að til stæði að hennar hátign myndi sitja við kvöldverðarboð forsetans.

Ingþór Ingólfsson, grafískur hönnuður, sendi Vísi þessa mynd í aðdraganda heimsóknar Margrétar Þórhildar á sínum tíma.INGÞÓR INGÞÓRSSON



Fleiri fréttir

Sjá meira


×